Norskir fjölmiðlar greina nú frá heldur bagalegu vandamáli sem upp kom fyrir páskana hjá Sparebank 1 SR-sparisjóðnum og nokkrum stórum bönkum sem hugbúnaðarrisinn EDB Ergogroup rekur kortakerfin fyrir. Á miðvikudaginn, þegar Norðmenn gengu berserksgang í verslunum og áfengisútsölum fyrir páskana, eða ætluðu sér alla vega að gera það, fóru allir hraðbankar SR skyndilega að hegða sér mjög undarlega. Þeir tilkynntu notendum að ekki væri hægt að verða við beiðni um úttekt vegna skorts á gagnasambandi við bankann.
Það sama gerðist í posakerfinu, ekkert gagnasamband. Þeir þrautseigustu prófuðu nokkrum sinnum að taka út úr hraðbönkum og greiða í posum verslana og gekk það að lokum í einhverjum tilfellum. Nú er komið í ljós að upphæðin, sem reynt var að taka út úr hraðbanka eða greiða í posa, fór út af reikningi korthafans í hverri tilraun sem hann gerði þótt tilkynning kæmi um misheppnaða færslu. Í dag eru verslanir opnar á ný í fyrsta sinn síðan á miðvikudag og komast þá þúsundir Norðmanna að því sér til skelfingar að bankareikningurinn er tómur eða upphæðin á honum mun lægri en þeir ætluðu.
Thor-Christian Haugland hjá SR segir í viðtali við Stavanger Aftenblad að málið sé hið alvarlegasta fyrir þá banka sem það snertir og komi auk þess upp á einum óheppilegasta degi sem í boði sé, miðvikudegi fyrir páska. Ekki bætir úr skák að starfsfólk SR áttaði sig fyrst á vandanum þegar notendur Facebook-samskiptasíðunnar fóru að kvarta yfir því í umræðum sín á milli.
Hjá EDB Ergogroup fást þau svör að verið sé að vinna í málinu og leiðrétta rangfærslur. Þeir geti hins vegar ekki lofað því að leiðréttingum verði lokið fyrr en seint á þriðjudagskvöld eða snemma á miðvikudagsmorgun eftir páska. Persónulega fyndist mér það nú bara nokkuð góður tími miðað við norska hraðann sem ég hef minnst á hér áður.
Við lentum auðvitað í þessu á miðvikudaginn og gátum hvergi notað kortin okkar frá Nordea-bankanum. Sem betur fer prófuðum við bara einu sinni. Það sem varð okkur til happs er að við höldum úti einu íslensku Visa-korti sem við notum aðallega við kaup á flugmiðum. Þetta kort gátum við notað vandræðalaust við kaup á aðföngum fyrir páskana sem var eins gott. Við komum hingað nær dauða en lífi á miðvikudaginn með átta innkaupapoka.
Hérna má sjá fréttir Stavanger Aftenblad, Aftenposten og NRK af málinu.