VG hafði það eftir veðurfræðingum í gær að búast mætti við hlýjustu páskum í tæp 60 ár í Noregi, eða síðan 1943. Það virðist ætla að ganga eftir, hér er þriðji í rjómablíðu í dag og virðist ekkert lát á. Ég á eitt kvöld eftir í aukavinnunni á N.B. Sørensens, sem er í kvöld, en þá er líka hafið páskafrí á báðum vígstöðvum fram á þriðjudag. Ég geri ráð fyrir rólegu kvöldi niður frá, 34 prósent íbúa Stavanger sögðust í nýlegri könnun Stavanger Aftenblad ætla út úr bænum um páskana. Flestir fara á skíði sem er ein manían hérna. Hinar eru siglingar og hjólreiðar. Ég kann nú best við mig með kalt hvítvín á svölunum en ætla þó að drattast að lyfta á morgun. Nóg verður étið og drukkið næstu daga. (MYND: Sól og blíða í Stavanger. Myndin er gömul en veðrið er svona þegar þetta er skrifað.)
Við fengum þetta fína lambalæri frá Íslandi, sérvalið af bróður mínum kokkinum. Eins eigum við tvær hangikjötsrúllur í frysti síðan við komum frá Íslandi í janúar og erum að spá í að sjóða hangikjöt með tilheyrandi íslensku meðlæti á morgun. Að lokum var hann Siggi, fyrrum vinnufélagi okkar í Nortura, svo indæll að koma með tvö páskaegg frá Nóa og Siríusi handa okkur úr nýlegri Íslandsheimsókn. Hér stefnir því í mjög þjóðlega stemmningu um páskana. Vantar bara íslenskt brennivín þótt nóg sé af erlendu brennivíni.
Stefnan er að njóta páskanna í botn, frá og með þriðjudegi skellur atvinnulífið á með krefjandi verkefnum, þar á meðal svokölluðum starfsmannasamtölum. Hvaða bjáni fann þá dellu upp? Svo líður að þriggja vikna sumarfríi sem verður næsta vin í eyðimörkinni. Eftir það er ekki einn einasti frídagur fyrr en á jóladag. Norðmenn hafa ekki haft vit á að koma sér upp frídegi verslunarmanna sem er mikil synd.
Í dag er sumardagurinn fyrsti og skírdagur. Það man ég ekki eftir að hafa upplifað áður á 37 ára ævi. Vel getur þó verið að það hafi gerst. En ég hef klárlega aldrei upplifað sautjánda júní á föstudegi eftir hvítasunnuhelgi eins og verður í sumar. Það er þrælmagnað fyrirbæri, þriggja daga vinnuvika á Íslandi. Reyndar verður hún það hjá mér líka þar sem ég er á vakt um hvítasunnuhelgina og á frí mánudag og þriðjudag. En það er samt ekki eins flott og að ná þessu á Íslandi. Sverrir Gauti vinur okkar stendur fyrir suddalegri þjóðhátíðargleði á veitingastað nokkrum niðri í bæ. Yfirleitt er Íslendingafélagið með eigið húllumhæ líka svo gera má ráð fyrir fjölda drukkinna Íslendinga í miðbænum 17. júní. Það er yndislegt. Gleðilegt sumar og gleðilega páska, góðir Íslendingar nær og fjær.