Í dag minnist ég þess með tár á hvörmum að 30 ár eru liðin síðan formleg þátttaka mín á vinnumarkaði hófst þriðjudaginn 3. júní 1986 en þann dag hóf ég störf í unglingavinnunni í Garðabæ, fyrsta sumarið af fjórum.
Fyrsti launaseðill ævi minnar sést hér á myndinni, 54 krónur á tímann uppskárum við yngsti hópurinn í víngarði drottins og fengum auk þess eingöngu að vinna hálfan daginn eftir hádegi og aðeins fyrstu tvær vikur júnímánaðar. Uppskera sumarsins var því heilar 2.700 krónur.
Þessi fyrsti vinnudagur var tiltölulega frábrugðinn mörgum störfum sem ég hef unnið síðan, hópurinn sinnti hreinsun meðfram Hafnarfjarðarvegi og unnum við Bergur Þór Þórðarson flokksbróðir minn það afrek að tína 1.050 sígarettustubba ofan í ruslapoka. Sú tínsla markaði greinilega djúp spor en fjórum árum síðar byrjaði ég að reykja.
Á öðrum vinnudegi þurfti ég að hringja í bæjarskrifstofur Garðabæjar og fá vitneskju um nafnnúmerið mitt svo hægt væri að setja mig á launaskrá. Það reyndist vera 0842-4241.
Þessi fjögur sumur voru með eindæmum skemmtileg. Vasaútvarpstæki með heyrnartólum þóttu mikið þarfaþing og ég minnist þess að sumarið 1987 skiptust vinnuhópar í fylkingar eftir því hvort hlustað væri á Bylgjuna eða Stjörnuna. Í júlí það sumar heimsótti sænska hljómsveitin Europe landann og lék fyrir dansi í Víðidal. Ég fór nú reyndar ekki.
Stórt þema í unglingavinnunni hin síðari sumur var jafnan árlegur kóktappaleikur Bylgjunnar og söfnuðu vinnuhópar töppum í gríð og erg, hvort tveggja með kókdrykkju og tínslu tappa við hreinsunarstörf. Mikil sprengja varð á útvarpsmarkaði 1989 þegar útvarpsstöðin FM hóf göngu sína og minnast margir væntanlega enn laganna La Barna, með hljómsveit sem líklegast hét Tennurnar hans afa, og First Black President með Blowfly. Voru þá slétt 20 ár í að fyrsti svarti forsetinn tæki við embætti vestanhafs en sá virðist þó ekki hafa hegðað sér neitt í líkingu við persónu lags Blowfly.
Eðlilega fór töluverð orka í að laumast undan vökulu augnaráði flokksstjóra og komast upp með að liggja og gera ekki neitt eins lengi og auðið var. Má segja að þessi háttsemi hafi orðið hálfgildings íþróttagrein eftir því sem tíminn leið. Mikil bylting varð í þessum fræðum þegar Andrés Birkir Sighvatsson, flokksbróðir minn síðustu tvö sumurin, birtist einn morguninn með kíki sem á var 90 gráðu sveigja þannig að með honum mátti sjá fyrir horn.
Stór hluti dagsins í vinnu, sem oft snerist um garðvinnu heima hjá eldri bæjarbúum, fór nú í að liggja handan næsta horns og fylgjast með því gegnum kíkinn hvort „kellingin“ væri í nánd en þar var átt við flokksstjóra okkar sumarið ´89, Ásdísi Ásgeirsdóttur, síðar Morgunblaðsljósmyndara. „Kellingin“ hefur líkast til verið 18 ára er þarna var komið sögu.
Ég minnist þessara sumra með mikilli gleði, þetta var frábær tími og laun hækkuðu í raun langt úr takti við kjarasamninga á vinnumarkaði. Sumarið 1989 var tímakaupið orðið 162 krónur sem var þreföldun frá 1986. Hve margar stéttir geta státað af þreföldun grunnlauna á þremur árum?
Það eina sem hélst óbreytt öll sumurin var hið lífseiga mottó unglingavinnunnar: „Það er ekki aðalatriðið að vinna heldur vera með!“
Flokksstjórar 1986 – 1989:
1986: Ásgeir (ófeðrað)
1987: Linda Rós Bragadóttir
1988: Ásta Leifsdóttir
1989: Ásdís Ásgeirsdóttir