Blindur er bóklaus maður

p5190259Mig langar til að deila með lesendum vefsetursins frumraun minni í stjórn umræðuþátta en þar var um að ræða lokaverkefni í sjónvarpsfréttanámskeiði MA-náms í blaða- og fréttamennsku sem ég telst nú rétt rúmlega hálfnaður með að afloknum vetri. Við Guðrún Hálfdánardóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu og fyrrum samstarfskona mín þar á bæ, gripum á kýlinu og tókum fyrir aðgengi fatlaðra að Háskóla Íslands í þættinum Ákveðin viðhorf á ÍNN.

Í miðjum þættinum sýnum við innslag þar sem við fylgjum eina lögblinda nemanda skólans eftir og skoðum hvernig honum gengur að rata um skólasvæðið með staf sinn og hyggjuvit að vopni. Býsna athyglisvert fannst mér persónulega þar sem maður hafði í raun aldrei leitt hugann að því hvernig blindum nemendum gengi að stunda háskólanám eða nám yfirleitt.

Í sama innslagi heimsækjum við Blindrabókasafn Íslands í Kópavoginum og ræðum þar auk annarra við Vigdísi Grímsdóttur rithöfund sem kemur þar reglulega, les inn á hljóðbækur og segist hvergi una sér betur en á bókasafninu. Sérstök athygli er vakin á Hafþóri Ragnarssyni, tónlistarmanni, skáldi og íslenskufræðingi, sem starfar á safninu og birtist reglulega í mynd. Góð skemmtun þeim sem hann þekkja.

Þáttinn má sjá hér og tvísmellt er á myndina til að breiða hana yfir allan skjáinn. Við Guðrún biðjum sjónvarpsstöðinni ÍNN allrar blessunar, þökkum fyrir samstarfið og tökum sérstaklega fram að allt stússið í kringum þetta var hin besta skemmtun.

Athugasemdir

athugasemdir