Vodafone á þessa viku

vodafoneKlósett vikunnar að þessu sinni er fjarskiptafyrirtækið Vodafone sem kann heldur betur að veiða eldri borgara í snörur sínar. Ekki það að sá sem hér ritar sé eldri borgari (eldri en þrítugur samt!) en fjölskyldan lenti í þeim rauðu. Í ljós kom að þegar starfsfólk fyrirtækis aðila nokkurs í fjölskyldunni hafði nýtt sér tilboð Vodafone um net,- síma- og sjónvarpstengingu hafði gleymst að upplýsa um að rukkanir fyrir leigðar kvikmyndir kæmu eingöngu í heimabanka og hvergi annars staðar.

Þar sem fólkið sem um ræðir er á sjötugsaldri og illa við róttækar nýjungar á borð við GSM-síma, tölvur og banka í tölvum átti það ekki annars von en að leigðar myndir yrðu gjaldfærðar á símreikning þeirra. Kaldur sannleikurinn beið í næsta gluggaumslagi.

Þar var búið að leggja á dráttarvexti og kostnað auk þess sem snyrtilega orðuð hótun beið viðskiptavina sem áttu sér einskis ills von. Það kostaði tvær heimsóknir til Vodafone að fá leiðréttingu og loforð um að framvegis yrði kreditkort viðkomandi viðskiptavina látið njóta kostnaðarins.

Það er hverju orði sannara sem Sigmar Vilhjálmsson, sölu- og markaðsstjóri Tals, ritaði í Morgunblaðið fyrr í vetur, að helmingur þjóðarinnar skilur ekki símareikninginn sinn enda er hann almennt fullur af einhverjum hýróglífum sem Forn-Súmerar yrðu fullsæmdir af að skilja. Þessu síðasta beini ég til Símans líka, sem ég hef skipt við alla mína ævi, og verð að játa að mér þykir sérstakt að mínir reikningar hækkuðu um 12.000 krónur á mánuði eftir gjaldskrárhækkunina 1. mars sl. sem mig minnir að hafi verið sex prósent. Mín hækkun nam 33 prósentum.

atlisteinn.is skorar á þjóðina að lesa símreikninga sína og tylla gleraugum gagnrýninnar hugsunar á nefið rétt á meðan (þessi síðasta setning var í boði Páls Skúlasonar heimspekiprófessors og fyrrum rektors).

Athugasemdir

athugasemdir