‘Það er miklu betra ef það á kost á að leita sér vinnu annars staðar, eða getur farið í nám að það geri það og komi svo aftur reynslunni ríkari.’
Setningin hér á undan er bein tilvitnun í Árna Pál Árnason félagsmálaráðherra úr fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Árni er að ræða um flótta ungs fólks frá landinu. Hann játar að um blóðtöku sé að ræða en stappar stáli í þjóðina með því að fullvissa hana um að allt unga fólkið snúi aftur sprenglært og reynslunni ríkara.
Draumamálaráðuneyti Íslands hefur talað. Félagsmálaráðherra til upplýsingar skal því komið á framfæri hér að þetta fólk verður vissulega reynslu og menntun ríkara. Þess vegna kemur það ekki aftur til Íslands, Árni. Maður getur ekki annað en spurt sig hvort Árni sé bara að blekkja sjálfan sig eða hvort hann haldi að hann geti blekkt íslensku þjóðina með þessum draumórum sínum.
Sá sem hér drepur niður penna þekkir persónulega yfir 70 manns sem þegar hafa flúið Ísland síðan í nóvember í fyrra og honum er kunnugt um þó nokkrar fjölskyldur sem eru um það bil að fara. Landsbankinn seldi íbúð ofan af einni þeirra vegna 200.000 króna skuldar, aðrir bankar fengu veiðileyfi á aðrar fjölskyldur, ríkisbankarnir sem fóru allir á hausinn vegna nýríkra asna sem stjórnuðu þeim og ætla nú að draga allt þjóðfélagið með sér. Ekkert þessa fólks ætlar að stíga fæti á íslenska jörð aftur á meðan það lifir, Árni Páll, ekkert þeirra.
Mörg þeirra kusu hins vegar Samfylkinguna og léttu blekkjast af fagurgala og hreinum lygum um betra þjóðfélag og skjaldborg um heimilin (les: skjaldborg um ESB). Ykkar 15 úrræði heimilunum til handa gagnast einni af hverjum hundrað fjölskyldum. Bankarnir keppast við að selja hús og íbúðir ofan af blásnauðum fjölskyldum sem létu glepjast af Samfylkingu og Vinstri grænum, jafnaðarhetjunum sem lofuðu réttlæti, jöfnuði og skjaldborg. Þið hafið ekki gert neitt, Árni Páll, þið hafið ekki gert neitt nema smæla framan í ESB sem á eftir að arðræna þjóðina meira en Hansakaupmenn, Englendingar og Danir til samans. Allir sem ekki eru komnir í vanskil geta farið og samið um hvað sem þá lystir. Þeir þurfa þess bara ekki vegna þess að þeir eru ekki í vanskilum! Hinir geta farið í greiðsluaðlögun og borðað grjónagraut og núðlur til æviloka.
Það verður kaldur dagur í helvíti, kæri félagsmálaráðherra, þegar unga fólkið snýr til baka, reynslunni ríkara. Sendu mér línu þegar það gerist. Ég óttast að þið Jóhanna verðið hugsanlega ein hér á Íslandi þá. Sovét-Ísland, hvenær kemur þú?
Til hamingju með skjaldborgina, því miður lekur hún. Og hún lekur mikið.