Löng helgi, jibbí

sumartimiVið erum í löngu helgarfríi núna, helgin er heilum klukkutíma lengri en hefðbundnar helgar. Hvernig má slíkt vera? Jú, á þriðja tímanum í nótt, aðfaranótt sunnudags, lýkur sumartíma í Evrópu og vetrartími tekur við. Þetta gerist einfaldlega þannig að klukkan þrjú í nótt verður klukkan tvö. Klukkutíma lengri nætursvefn og klukkutíma lengri helgi. Þá fylgir vetrartímanum annar ótvíræður kostur en hann er sá að sólin kemur upp klukkutíma fyrr á morgnana (auðvitað kemur hún upp á tiltölulega sama tíma en úr og klukkur landsmanna munu gefa til kynna snemmbúnari tímasetningu).

Ég skrifaði um sumartímafyrirkomulagið í pistli einhvern tímann í sumar. Ég hafði aldrei velt þessu sérstaklega fyrir mér fyrr en við fluttum til Noregs. Nú finnst mér þetta alveg stórsniðugt, sérstaklega hérna þar sem vinnudagurinn hefst mjög snemma, yfirleitt klukkan 07:00 (við byrjum kortér fyrir sjö í sláturhúsinu þar sem kjötafurðir þurfa að vera byrjaðar að streyma til vinnsludeildanna þegar vinnan hefst þar klukkan sjö). Stór hluti Norðmanna lýkur störfum klukkan hálfþrjú á daginn og þeir sem eru í sæmilegum málum með fjarlægð frá vinnustað eru komnir heim um þrjúleytið. Þá er sólin í hádegisstað mestan hluta sumarsins, alveg fram í ágúst. Á sólskinsdögum, sem eru margir hérna í Suður-Noregi, táknar þetta allt að sjö klukkutíma sólbað í garðinum á venjulegum vinnudegi sem er ekki slæmt.

Núna græðum við en ég tapaði illilega á sumartímanum vorið 2003 þegar ég var Nordplus-skiptinemi við Háskólann í Helsinki. Þá var allur bekkurinn að hella ofan í sig brennivíni með látum á bar í miðbæ Helsinki eins og lög gera ráð fyrir á laugardagskvöldum. Lokaverkefni var fram undan og erfiðir tímar yfir bókum. Vonbrigðin voru því ekki lítil klukkan tvö þegar klukkan varð skyndilega þrjú og barinn lokaði þegar í stað. Enginn viðstaddra hafði munað eftir því að sumartími átti að ganga í garð þessa nótt. Hann hefur því einnig sínar skuggahliðar.

Íslendingar lögðu niður sumartíma árið 1968 eftir töluverðar deilur (sennilega vegna tapaðs drykkjutíma) en þá var Greenwich-meðaltími fastsettur sem íslenskur tími allt árið. Norðmenn hafa hringlað aðeins með sumartímann frá því hann var fyrst tekinn upp hér árið 1916 en frá 1979 hefur hann verið við lýði og hefur góð sátt ríkt um málið.

Á Íslandi hafa í tvígang síðastliðinn áratug verið lögð fram frumvörp um að taka upp sumartíma á ný. Hefur það ekki verið óumdeilt eins og lesa má um í þessari grein Skúla Skúlasonar sem birtist í Morgunblaðinu í nóvember árið 2000. Hlutlaus fræði um sumartíma má hins vegar nálgast í þessari ágætu grein Almanaks Háskóla Íslands. Sitt sýnist hverjum en ég mæli með þessu fyrirkomulagi, alveg hiklaust.

Athugasemdir

athugasemdir