Verðugt viðtal hjá Agli í dag

egill helgaÞað var einstaklega athyglisvert að hlusta á Andra Geir Arinbjarnarson verkfræðing í Silfri Egils í dag. Horfa má á viðtalið hér. ‘…hvort við getum ekki fært fjármuni til alls þessa fólks sem stendur í biðröð eftir plastpokum,’ var meðal þess sem Andri kastaði fram í mjög áheyrilegu viðtali. Andri er búsettur erlendis og er fyrrverandi starfsmaður McKinsey í London og New York. Ekki tekst mér að grafa upp hvar hann er starfandi nú.

Þetta er kórrétt sem Andri segir um að myndast hafi vítahringur á íslenskum vinnumarkaði vegna mörg þúsund ungra menntaðra Íslendinga sem flýja sökkvandi íslenskan vinnumarkað eins og fætur toga. Í staðinn ráði vinnuveitendur erlent vinnuafl sem ekki hafi eins haldgóða menntun og sætti sig auk þess við að þiggja lægri laun en Íslendingar í sambærilegum stöðum. Andri telur að allt að áratugi geti tekið að vinda ofan af þeirri þróun sem vissulega er mjög slæm. Við Íslendingar höfum aldrei staðið frammi fyrir öðru eins.

‘Hvaða Íslendingum getum við treyst fyrir fjármagni?’ spyr Andri í Silfrinu. Stutta svarið er einfalt: Engum. Ég myndi ekki treysta nokkrum einasta Íslendingi fyrir því að koma að íslenskum fjármálum næstu öldina eða svo. Íslendingar eru upp til hópa duglegt fólk sem vill helst vinna myrkranna á milli og njóta uppskeru vinnu sinnar þess á milli. Forstjóri byggingaverktakans Stangeland, sem er Ístak Noregs, sagði í viðtali við Stavanger Aftenbladet um íslenska starfsmenn fyrirtækisins: ‘Íslendingar standa uppréttir mót norðanvindinum og kunna að vinna. Þú réttir þeim bara teikningarnar og þeir gera þetta.’ Það er svo sannarlega rétt hjá honum, hér í Noregi eru Íslendingar að slá í gegn á vinnumarkaðnum.

Ég svara spurningu Andra, um hverjum treysta megi fyrir fjármagni, með svari íslenskra höfðingja á þrettándu öld við spurningunni um hverjum treysta mætti fyrir því að láta Íslendinga ná friði og íslenskum lögum. Svarið var gamli sáttmáli sem undirritaður var ‘að bestu manna yfirsýn’ á Alþingi Íslendinga árið 1262. Þar var verkefnið lagt í hendur Hákonar gamla og Magnúsar lagabætis Noregskonunga og hefur þar sennilega verið um að ræða fyrstu úthýsingu (e. outsourcing) Íslandssögunnar. Þessi ágæti sáttmáli var felldur úr gildi með svokölluðum Kópavogsfundi árið 1662 sem sýnir okkur að Gunnar I. Birgisson er langt í frá það versta sem hent hefur Kópavog þótt Kópvygingar gráti undan honum. Sagt er að Árni Oddsson lögmaður hafi grátið er hann ritaði nafn sitt undir sáttmálann á Kópavogsfundinum. Merkilegt hvað menn sem eru Oddssynir hafa komið sterkt við Íslandssöguna síðustu 350 ár.

Athugasemdir

athugasemdir