Þetta er alveg botninn, ég er rúmliggjandi með flensu og hita á sjálfan Icesave-kjördaginn! Mér verður nú ekki oft misdægurt, síðast árið 2004 minnir mig, og er því þeim mun skelfilegra ef það gerist á merkisdögum íslenska lýðveldisins eins og í dag. Ég bæli því fletið á meðan sól skín í heiði úti, með tölvu í kjöltu til að ná helstu fréttum frá gamla landinu. Ég sé að nú er það helst tíðinda að Ólafur Ragnar Grímsson mætti á kjörstað klukkan ellefu árdegis. Gott hjá honum. (MYND/Rósa Lind Björnsdóttir.)
Þetta er reyndar ekki albölvað. Nú neyðist ég til að skrifa upp dagbókina mína en ég skulda tvær vikur. Merkilegur ósiður sem hefur kviknað hjá mér síðustu ár að vanrækja dagbókina dögum saman og sitja svo sveittur við að vinna upp syndirnar. Þá man ég oft ekki baun hvað gerðist þennan eða hinn daginn og fyrir vikið verða bækurnar ekki sú heimild sem til var ætlast í upphafi. Sem barn ritaði ég samviskusamlega fyrir svefn kvöld hvert.
Ég byrjaði að skrifa dagbók í mars 1982 undir áhrifum frá ömmu og hef gert það síðan ef frá er talið tímabilið júní 1991 til maí 2000 en þá varð algjört messufall í þessum efnum vegna drykkju og saurlífis. Fyrstu skrif eru varðveitt í lúnum stílabókum en svo urðu þetta alvöru innbundnar dagbækur og nú nær lengjan yfir rúmlega hálfa hansahillu hjá mér. Það merkilega er að ég les þetta yfirleitt aldrei, stundum þó og þá græt ég auðvitað innvortis af horfnum æskuminningum. Dolores humani multi sunt (sársaukar mannkyns eru margir [þó umdeilanlegt hvort orðið sársauki sé nothæft í fleirtölu]).
Icesave-vaktin verður staðin hér samviskusamlega fram eftir degi. Mér finnst þetta mjög stór dagur fyrir þjóðina. Mikill hiti var í mönnum vegna EES-samningsins árin 1991 – ’92 og grétu margir þegar hann varð að lögum númer 2 frá 1993. Vigdís íhugaði að vísa þeim lögum til þjóðarinnar en gerði ekki. Þær deilur voru þó sem hjal ómálga barns miðað við Icesave-skálmöldina sem nú geisar.
Ég veitti erlendum fjölmiðlum fjölda viðtala í fyrra og hitteðfyrra vegna væntanlegs flutnings okkar úr landi í kjölfar Icesave og kreppu. Slíkur landflótti þótti merkilegur. Hérna má lesa viðtal við mig á kínversku sem einnig birtist á ensku, þýsku og tyrknesku í sama miðli. Þarna er ég enn með skeggið góða sem ég lét fjúka þegar ég byrjaði á sláturvertíðinni hjá Nortura síðasta haust sællar minningar.
Það er gaman að rifja það upp að hollenska sjónvarpsstöðin RTL var með beina útsendingu úr stofunni heima hjá mér í Mosfellsbæ þegar Ólafur Ragnar synjaði fyrri Icesave-lögunum staðfestingar í fyrra. Ég þýddi ræðu hans lauslega fyrir sjónvarpskonuna og hún tók þetta í beinni yfir til Hollendinga. Ég hefði getað logið hana fulla! Gerði það samt ekki. Önnur hollensk stöð, NovaTV, fylgdi okkur svo á kjörstað þegar við kusum í þjóðaratkvæðagreiðslunni og sá náungi var virkilega erfiður. Hann lét okkur leika fyrir sig venjulegan morgun hjá okkur í Leirutanganum þar sem við steiktum egg fyrir framan tökumanninn. Akkúrat það síðasta sem við myndum gera nývöknuð en svona er sjónvarp…það nægir að virðast trúverðugt.
Nú ætla ég að halda áfram að fylgjast með stöðu mála á Íslandi, spenntur og veikur. Ég get ekki beðið eftir fyrstu tölum í kvöld. Nei þýðir nei!