Til hamingju Ísland

domarahamarVefsetrið atlisteinn.is fagnar því innilega að Geir H. Haarde fái að mæta Landsdómi en harmar jafnmikið að dýralæknirinn og fjármálaráðherrann fyrrverandi, Árni M. Mathiesen, sem steypti yfir okkur hatri Alistair Darling og Breta með einu símtali á bjagaðri menntaskólaensku haustið örlagaríka fyrir tveimur árum, verði ekki dreginn fyrir hinn sama dóm. Ólyginn sagði að Árni hefði hafið símtalið við breska fjármálaráðherrann á orðunum ‘Hello Darling’ og er það sennilega rétt.

Mér er það minnisstætt að þegar ég starfaði á Vísi, á meðan verkfall ljósmæðra vofði yfir og varð að veruleika haustið 2008, tók formaður félags ljósmæðra fjármálaráðherra engum vettlingatökum í fjölmiðlaumfjöllun og var það haft í flimtingum á morgunfréttafundum hjá 365 hvort ekki væri hægt að fá formann ljósmæðra til að lýsa því yfir í viðtali að fjármálaráðherra væri ljósmóðir hins illa, sbr. fræg ummæli George W. Bush árið 2002 um möndulveldi hins illa. Hugmyndin þótti góð en ekki var þó imprað á þessu í viðtölum við formanninn svo ég viti.

Ég heyri í fréttum að þetta Geirsmál er umdeild niðurstaða Alþingis og reyndar tel ég löngu tímabært að boðað verði til kosninga og nauðungarseldum almenningi gert kleift að segja sitt um núverandi óstjórn.

‘…ég kvíði því ekki þegar Landsdómurinn hefur farið yfir öll málsatvik og skoðað öll gögn málsins,’ voru lokaorð Geirs H. Haarde í fréttum RÚV í kvöld. Þarna talar hrokafyllsti maður sem ég hef tekið viðtal við á ævinni og minnist ég þess með nokkurri skemmtun þegar hópur blaðamanna kom saman til að spyrja Geir spjörunum úr eftir ríkisstjórnafundi í stjórnarráðinu árið 2008 og algengustu setningarnar, þegar ekki var verið að tala akkúrat um það sem hæstvirtur ráðherra kaus, voru á borð við ‘Heyrðu, við vorum ekkert að tala um þetta núna.’, ‘Ég er löngu búinn að svara þessu.’, ‘Af hverju ert þú að breyta um umræðuefni?’ og ‘Þetta er búið núna.’ sem voru annáluð skilaboð Geirs til íslenskra blaðamanna áður en hann fór að ræða við hæstvirta erlenda blaðamenn á frægum fundi 9. október 2008. Að ógleymdum auðvitað gullmolanum fræga frá sama fundi: ‘Þetta er algjört fífl þessi maður og dóni.’ og var þar vísað til Helga Seljan Kastljósmanns.

Reyndar hafði Geir rétt fyrir sér í einum ummælum hér að ofan og það var með orðunum ‘Þetta er búið núna.’ Það er rétt hjá þér, Geir, þetta er loksins búið núna.

Athugasemdir

athugasemdir