Nú er tilvalið að minnast þess að í dag eru 49 ár síðan minn gamli gagnfræðaskóli, Garðaskóli í Garðabæ, tók til starfa 11. nóvember 1966, rödd mín mun auðvitað drukkna í fagnaðarlátunum á 50 ára afmælinu svo ég færi þessi minningarorð bara fram núna í staðinn.
Þarna átti maður býsna góða tíma frá hausti 1985 og fram á vor 1989 þegar hinn alræmdi ’89 árgangur lauk loks skyldunámi sínu og skólayfirvöld bæjarins gátu loks varpað öndinni léttar og snúið sér að því að uppfræða nokkurn veginn normalt fólk, þó með einhverjum undantekningum.
Reyndar lukum við ’89 fólkið námi óvenjusnemma, rétt upp úr páskum í byrjun apríl þar sem þá hófst 42 daga langt verkfall grunnskólakennara og taldist árgangurinn hafa lokið keppni, vetrareinkunn var látin gilda sem lokaeinkunn þá um vorið, mörgum frjálslyndari nemendum (þ. á m. þeim er hér ritar) til ómældrar gleði. Kristín Bjarnadóttir bauð af rausnarskap upp á aukatíma í stærðfræði á laugardögum fyrir þá sem vildu ef svo skyldi fara að próf yrðu haldin í maí. Ég lét sjá mig í tveimur þeirra minnir mig, aðallega af ótta við að próf yrðu haldin í maí.
Með þessu var maður auðvitað rændur þeirri gleði sem fylgir því að ganga út í vorsólina að loknu heilu skólastigi hafandi svitnað gegnum einhver próf og getað kallað sig námsmann innan gæsalappa. Ég persónulega varð bara að láta mér nægja að rifja upp stundina þegar Sigrún Gísladóttir, þáverandi skólastjóri Flataskóla, kvaddi sama hóp með nokkrum vel völdum orðum föstudaginn 31. maí 1985 og glotti líklega við tönn í laumi yfir þeim örlögum sem augljóslega biðu nú starfsbróður hennar, Gunnlaugs Sigurðssonar, og kennaraliðs hans við Garðaskóla.
Allt fór þetta nú vel samt og þessi 150 nemenda árgangur slapp með skrekkinn að mestu. Reyndar bar það svo við, að þegar okkur félögum þótti við hafa varið of miklum tíma af námsárunum á svörtum bekk sem píslarvottar hírðust á þar til skólastjóra þóknaðist að veita þeim enn eitt tiltalið vegna einhverrar jaðarhegðunar, að við kusum að hressa upp á útlit bekkjarins með bleikri málningu.
Fór sá gjörningur fram í skjóli kvöldrökkurs mánudaginn 14. nóvember 1988 og komu að ýmis síðar stórmenni, meðal annars núverandi lögregluvarðstjóri og forstjóri stórfyrirtækis í tölvuleikjaiðnaði. Forsprakkar hópsins voru gripnir og urðu af nokkur eftirmál en mörgum þótti hin besta skemmtun og má þar nefna Karl Valgeir Jónsson stærðfræðikennara sem ískraði í af kátínu á meðan hann lét fjúka í ýmsa kerskni, svo sem að undirritaður mætti vel bregða sér á salernið svo lengi sem hann ekki málaði bekkinn í leiðinni.
Minningarnar eru margar og góðar og greinilega margt breytt sé ég nú þegar ég renni yfir heimasíðu skólans. Verða þar fyrst fyrir kynjahlutföll en nú eru skólastjóri og aðstoðarskólastjóri af kvenkyni, sem er ánægjulegt, og auk þess smíðakennari skólans. Hins vegar er annar tveggja heimilisfræðikennara karlkyns en þau fræði auk hannyrða nam minn árgangur hjá miklum valkyrjum á sínum tíma, líklega hjá Hrafnhildi í Garðaskóla en í Flataskóla hélt hún Margrét okkur í járngreipum og sat ég þar eina skiptið á ævinni við prjónaskap og varð úr tveggja metra langur trefill sem nú er horfinn á braut, sennilega báðum fyrir bestu, flíkinni og framleiðanda hennar.
Ég óska Garðaskóla til hamingju með að hafa slitið barnsskónum svona rækilega, hálfrar aldar starf á næsta ári.