Ástráður Karl Guðmundsson – in memoriam

LovepowerÞær voru óvæntar og nöturlegar, fréttirnar af því að Ástráður Karl Guðmundsson, viðskiptafræðingur og endurskoðandi,  samstarfsmaður okkar hjóna hjá tollstjóranum í Reykjavík hér áður fyrr, hefði kvatt þennan heim fyrir rétt rúmri viku, aðeins 56 ára gamall. Líkt og ávallt, við fráfall samferðamanna, hvarflar hugurinn til baka og ýmsar minningar skjóta upp kollinum.

Auðvitað eru það hreinir fordómar af minni hálfu að ég hef aldrei tengt endurskoðendur við neinn sérstakan ferskleika eða gleði og í ofanálag var Ástráður innri endurskoðandi hjá tollstjóra sem hljómaði alveg sérstaklega þrúgandi. En Ástráður var gleðimaður. Hann var eiginlega sannkallaður stuðbolti og jafnan stutt í dillandi hlátur og vandræðalegar sögur af honum sjálfum sem hann skirrðist ekki við að segja og snerust minnst um innri endurskoðun. Hefði líklega frekar mátt flokka undir einhvers konar ytri skoðun.

Áhugi Ástráðar á fagi sínu var óviðjafnanlegur en hann tók virkan þátt í starfi Félags um innri endurskoðun og fór þar fyrir alþjóðanefnd. Taldi Ástráður sér því bæði ljúft og skylt að rita greinar um starfsemi deildar sinnar í Tollpóstinn, fréttabréf embættisins, þegar eftir því var falast en undirritaður sat þar um tíma í ritstjórn og ekki alltaf auðsótt mál að virkja samstarfsfólkið til að leggja fram aðsent efni. Næsta efni á eftir í Tollpóstinum, sem hafði með Ástráð að gera, fjallaði svo um þegar hann beitti nýfenginni kunnáttu af brunavarnanámskeiði, sem haldið var hjá tollinum, til að slökkva eld heima hjá sér svo segja má að efnistök hans hafi spannað vítt svið.

Mér skilst að félagar Ástráðar Karls í Félagi um innri endurskoðun hafi kallað hann Kalla en þar með voru gælunöfnin ekki upp talin þar sem „Stráði“ heyrðist annað slagið hjá tollstjóra en hjá okkur í innheimtudeildinni á fjórðu hæðinni við Tryggvagötu gekk hann jafnan undir heitinu „Lovepower“ í samræmi við nafnið Ástráður.

Oftar en einu sinni fékk maður að sjá hliðar á „Lovepower“ sem mann óraði ekki fyrir að hann ætti til, svo sem þegar hann steig trylltan dans á skemmtikvöldi tollsins í desember 2003 auk þess að slá í gegn í hinni hatrömmu en árlegu keilukeppni skattstjóra og tollstjóra um haustið sama ár.

Það var þó í hinni árlegu þrifakeppni tollstjóra, Tuskudögum, vorið 2005 sem Ástráður sýndi á sér þá hlið sem lengi mun uppi verða en þá hafði ríki hans, önnur hæðin, tekið sig til og umbreytt salarkynnum sínum í hof þar sem Ástráður lék hlutverk átrúnaðargoðsins. Sjálfur sveif hann þar um, léttur á fæti, krýndur höfuðdjásni miklu og vafinn glimmerþráðum sem augljóslega höfðu opnað nýjar víddir í innri endurskoðun.

Við hjónin kveðjum endurskoðandann spaugsama með söknuði og skemmtilegum minningum frá árum okkar hjá tollstjóra og biðjum fjölskyldu hans og vinum allrar blessunar.

Atli og Rósa

Athugasemdir

athugasemdir