Addi reddari – in memoriam

Addi„Þessi er alveg sérstaklega handa þér, Atli!“ sagði Kristinn Arnar Stefánsson, einnig – og jafnvel að mörgu leyti betur – þekktur sem Addi reddari, um leið og hann rétti mér fagurgrænan drykk í kokteilglasi þar sem við sátum á teppi á miðjum golfvellinum í Vestmannaeyjum á Þjóðhátíð sumarið 1998.

Seint hefði ég búist við að mér yrðu slíkar veitingar bornar á miðjum golfvelli á útihátíð en einhvern veginn kom það þó minna á óvart þegar Addi átti í hlut. Hann hafði, þegar þarna var komið sögu, tekið af sér myndarlegan bakpoka og dregið upp úr honum heilan ferðabar, líkjöra, rjóma og allt til alls auk þess sem kokteilhristari og glös á fæti settu punktinn yfir i-ið. Reddarinn í essinu sínu.

Leiðir okkar Adda lágu saman í lagadeild háskólans um miðbik tíunda áratugar síðustu aldar. Duldist þar fáum þegar verslunarskólastúdentinn ungi var á ferð enda aldrei lognmollan í kringum Adda reddara en hið lífseiga viðurnefni hans festist endanlega í sessi í stúdentakosningunum í febrúar 1997 (frekar en ’98) þegar Addi, sem var harður stuðningsmaður Vöku öll sín háskólaár, kom sér upp poppkornsvél sem hann stillti upp við aðalinngang Lögbergs og bauð þar gestum og gangandi upp á popp í nafni félags lýðræðissinnaðra stúdenta.

Í lagadeildinni varð Addi einnig lifandi goðsögn fyrir ótrúlega getspeki sína um prófspurningar og söfnuðust stórir hópar laganema gjarnan um hann á vordögum til að hlýða á lokaúrskurð véfréttarinnar í Lögbergi um komandi próf í kröfurétti eða þeirri fræðigrein er næst stóð fyrir dyrum að prófa úr. Til voru þeir nemendur sem lásu jafnvel eingöngu eða að mestu eftir spám reddarans og við sjálft lá að hlutabréfavísitölur sveifluðust með orðum hans.

Eins og það væri ekki meira en fullt starf að vera allt í öllu í námi og félagslífi lagadeildarinnar gerði Addi sér lítið fyrir og rak ásamt fjölskyldu sinni veitingahúsið Rauðará í gamla Egils brugghúsinu við Rauðarárstíg og var kvöldverður þar oftar en ekki liður í skemmtanahaldi samnemendanna en reddarinn og fjölskylda gengu um beina að hætti sannra fagmanna enda eldamennska og framreiðsla eitt af þúsund áhugamálum Adda líkt og hann greindi frá í viðtölum við fjölmiðla en herkænskan auðvitað aldrei langt undan eins og hann lýsti fyrir blaðamanni Vísis árið 2006: „Ef ég elda slepp ég við uppvaskið.“

Ég þekkti Kristin Arnar Stefánsson í raun ekki mikið en hann var líka einn af þessum einstaklingum sem maður þurfti ekkert að þekkja mikið til að njóta ljómans af persónu hans. Ég þakka fyrir einstaklega kraftmikil kynni og bið Berglindi Ósk og fjölskyldu Adda allrar blessunar á erfiðum tímum.

Athugasemdir

athugasemdir