Sjón er varpi ríkari – stiklað á 12 af 50 árum

stillimyndÍ dag eru 50 ár síðan Ríkisútvarpið hóf að fikta sig áfram með sjónvarp og innlent sjónvarpsefni leysti hið goðsagnakennda Kanasjónvarp af hólmi, mörgum menningarvitanum og hreintungustefnumanninum vafalítið til hrollkenndrar sælu. Sagnfræðingar eru betur til þess fallnir en ég að rifja atburði þessa upp í smáatriðum en mitt framlag til 50 ára afmælis íslenskra sjónvarpsútsendinga verður þessi stutta samantekt yfir tíu eftirminnilega dagskrárliði sjónvarps RÚV sem ég minnist með hlýju og söknuði þegar ég lít til baka yfir það tímabil þegar sjónvarp var hvað stærstur hluti af lífi mínu sem hefur líklega verið um það bil 1978 – 1990. Þá var töfraljóminn að minnsta kosti enn hreinn í óspjölluðum barnshuganum. Listinn er ekki í sérstakri röð en ég ætla þó að hefja hann á dagskrárliðum sem byrja á D, þeir eru einhverra hluta vegna atkvæðamestir.

 

Dave Allen

Írski háðfuglinn með hálfa fingurinn og viskíglasið átti óborganlega spretti í stólnum þar sem hann skemmti sér við að draga kaþólska klerka sundur í logandi háði auk margs annars. Ég skildi ekki helminginn af bröndurunum árið 1984 en gat samt horft á þættina hundrað sinnum á myndbandsupptökum. Nú er þetta líklega á YouTube.

 

Dallas

Drykkfellda olíufjölskyldan í Texas með allar sínar flækjur drakk sig inn í hug og hjörtu þjóðarinnar á miðvikudagskvöldum. Í þessum þáttum gerði fólk ekki annað en að þamba viskí úr mjólkurglösum í fullri stærð og við þessu var ekki sagt orð þrátt fyrir púrítanahátt Íslendinga á virkum dögum þessa tíma. Mér fannst beinlínis óviðeigandi að sjá Larry Hagman leika önnur hlutverk en J.R. Ewing.

 

Derrick

Horst Tappert heitinn var undarleg blanda í rykfrakkanum með Walther PPK-hólkinn en mæltur á hreina gullaldarháþýsku enda Derrick-þættirnir upphaflega þýskukennsluþættir þar til þeir slógu í gegn sem harðkjarnakrimmi úr undirheimum München og nágrennis. Fritz Wepper var einnig heillandi á hliðarlínunni sem hin smávaxna hjálparhella Harry Klein.

 

Daníel sullskór

Þessi súrrealíska teiknimyndapersóna gerði það að verkum að ég hef æ síðan séð rauðhærða í einhverju undarlegu ljósi. Undirliggjandi heimspeki þáttanna var ægidjúp en að sama skapi erfitt að finna beinlínis boðskap í henni. Lagið í þáttunum var óborganlegt.

 

Pósturinn Páll

Líkt og sullskórinn var pósturinn írski á klikkaðri enda geðrófsins og ekki bætti kötturinn Njáll úr skák. Megininntak póstsins Páls var einhvers konar zen-búddismi sem borinn var á borð fyrir áhorfendur með einföldum sögum þar sem Páll glímdi við fremur grunn siðferðileg álitaefni og lagði lífsreglurnar í lok hvers þáttar. Þessu fylgdi jafnan mikið kökuát, kannski var Páll fyrirboði um Sigmund Davíð.

 

Stundin okkar

Einu gildir hve margir hafa stjórnað Stundinni okkar fyrr og síðar, Bryndís Schram var mín manneskja í Stundinni eins og Roger Moore var minn eini James Bond. Sunnudagskvöld með Bryndísi var allra meina bót þótt ég muni ekki fyrir mitt litla líf hvað hún var beinlínis að stússast í öllum þessum þáttum.

 

Húsið á sléttunni

Algjörlega galnir þættir, byggðir á endurminningum Lauru Ingalls Wilder, dóttur landnemahjóna í Minnesota á árunum upp úr 1870. Sumar persónurnar voru ógleymanlegar, svo ekki sé minnst á klæðaburðinn, en upp úr standa skandinavísku snobbhænsnin og kaupmannshjónin Nels og Harriet Oleson. NBC framleiddi þættina og kynnti þá með tveggja klukkustunda sjónvarpsmynd með sama titli en sú fór fyrst í loftið laugardaginn 30. mars 1974. Það var ekki eina frumsýningin þann daginn því í Reykjavík fæddist ég klukkan 15:33.

 

Smjattpattar

Brottflúnir ávextir og grænmeti með kostuleg viðurnefni í upphaflega breskum teiknimyndaþáttum sem gengu undir nafninu The Munch Bunch á frummálinu og voru runnir undan rifjum Giles Reed sem var í raun sameiginlegt höfundarnafn þriggja persóna undir forsæti rithöfundarins Denis Bond. Ég man enga söguþræði, nóg var að reyna að muna hvað allir hétu, Baunabelgur prófessor, Lúlli laukur, Bogi brómber og svo framvegis.

 

Stiklur

Ein eftirminnilegasta framleiðsla Ríkisútvarpsins á níunda áratugnum, alla vega í mínum huga, voru Stiklur Ómars Ragnarssonar. Ómar flaug og ók um landið, heilsaði upp á einbúa, alþingismenn í heimahögum, steinasafnara og að minnsta kosti einn bónda sem fékk hjartastopp skömmu eftir viðtalið og tókst með naumindum að flytja á spítala en sá hafði hvorki síma né önnur boðskiptatæki og ekki var hann á Facebook. Stikluþátturinn um gönguleiðir og náttúrufyrirbrigði á Reykjanesi var sérstaklega eftirminnilegur og nú bý ég svo vel að hafa fengið allt safnið á DVD í jólagjöf frá tengdamömmu. Takk, Ómar!

 

Sjónvarp næstu viku

Ekkert sunnudagskvöld stóð undir nafni fyrr en Magnús Bjarnfreðsson hafði farið á kostum við kynningu sjónvarpsdagskrár næstu viku og sýnt stutt brot úr helstu dagskrárliðum, grafalvarlegur í stífpressuðum jakkafötum og með þetta ógleymanlega stef þáttarins að vopni. Magnús var gripinn glóðvolgur í Áramótaskaupi 1985 og gríninu stillt upp þannig að hann sýndi í sífellu brot úr næsta þætti hjá sjálfum sér út í hið óendanlega.

Takk fyrir mig, RÚV, og til hamingju með 50  ár af sjónvarpi. Enn sakna ég nú samt sjónvarpslausu fimmtudaganna!

Athugasemdir

athugasemdir