X-D…ensín

bensindaelaÉg er vitlaus í pólitík, alveg óttalega vitlaus. Ég kýs til dæmis yfirleitt ekki ef það rignir, þá nenni ég hreinlega ekki á kjörstað. En þetta bensínlækkunarfrumvarp sjálfstæðismanna hlýtur að vera gegnsæjasta atkvæðanet mannkynssögunnar og bið ég bara stjórnmálafræðinga landsins að leiðrétta mig ef þetta er ekki kórrétt kenning hjá mér:

Sjálfstæðisflokkurinn lagði í dag fram frumvarp sem lækkar verð á eldsneytislítranum um 28 krónur. Lækkunin skilar sér strax við dæluna til almennings og lækkar auk þess vísitölu neysluverðs um hátt í eitt prósent, sem eykur kaupmátt og hefur bein áhrif til lækkunar á greiðslubyrði lána. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins. (af vef Vísis í dag)

Einmitt. E=mc². Það er að segja = Sjálfstæðismenn veðja á að landinn felli Icesave III 9. apríl. Við þetta springur Jóhönnustjórnin (Allah sé lofaður). Þá verður boðað til kosninga. Í þeim kosningum muna Íslendingar ekki lengra aftur en til marsloka er fagurt bensínfrumvarp Sjálfstæðisflokksins veitti eina vonarneista íslenska bílsins. Ergo: X-ið skilar sér við D-ið og allt verður eins og það á að vera.

Ég ætla að leggja það á mig um helgina að fara til íslenska konsúlsins sem situr hérna í Sandnes og setja utankjörstaðanei við Icesave þó ekki sé nema í þeirri veiku viðleitni að fella Icesave og sanna afstæðisbensínkenningu mína sem ég fæ svo síðar friðarverðlaun sjálfs Nóbels fyrir og græt eins og Laxness við þá afhendingu árið 1955.

Athugasemdir

athugasemdir