Það var fróðlegt að fylgjast með Sindra og félögum í Íslandi í dag kvöldsins. Þar var púlsinn tekinn á þrautabrautaþættinum Wipeout sem tekinn er upp í Buenos Aires í Argentínu og virðist – svona í fyrstu – hálfgerð Krýsuvíkurleið (eða Krísuvíkurleið ef menn kjósa þann rithátt en uppruni örnefnisins er óljós).
Það er þó töluverður úrdráttur að nota það hugtak þar sem raunir þeirra sem veljast til keppni í Wipeout virðast nánast eitt hundrað prósent óyfirstíganlegar. Enginn af þeim, sem birtust á skjánum, komst lengra en á þriðja bolta í þrautinni sem kennd er við boltana rjóðu (e. The Red Balls) og aðrar þrautir virtust síst ganga betur.
Þó vantaði ekki að einvalalið vaskra Íslendinga væri á staðnum og hafði einum þeirra þegar tekist að verja tveimur dögum á argentínsku sjúkrahúsi eftir að hafa reynt sig við eina af brautum keppninnar. Væntanlega í góðu lagi ef matseðillinn á argentínskum sjúkrahúsum er eitthvað í líkingu við steikhús Argentínu hérna á Barónsstíg 11A. Lesendum er um leið bent á að matseðillinn fyrir jólahlaðborð Argentínu er kominn á heimasíðu staðarins og ekki vitlaust að panta borð í fyrradag.
Annars virðist Wipeout-þátturinn fróðlegur og munu margir án efa skemmta sér yfir íslenskri útgáfu þáttanna sem tekin verður upp í Argentínu en sýnd hér eftir áramótin. Ég verð því miður ekki einn af þeim þar sem ég er ekki með Stöð 2 en ég óska hinum blessunar og skemmtunar.
Næsti stórviðburður íslenskrar raunveruleikasjónvarpsflóru verður annars þegar atlisteinn.is hleypir af stokkunum hinum ærslafullu skemmti- og raunveruleikaþáttum So you think you can drink en það verður um leið og Nýi Landsbankinn samþykkir að fjármagna verkefnið. Viðræður eru langt komnar og jafnvel gert ráð fyrir að tökur hefjist með rísandi sól.
Fyrirkomulagið verður svipað og í raunveruleikasápunni So you think you can dance nema hvað íslenska útgáfan verður mun þægilegri fyrir keppendur. Þeir sitja einfaldlega og fá sér í glös á sviði fyrir framan dómnefnd sem skipuð verður helstu kantmönnum lífsins, svo sem útigangstæknum og öðrum hörðum drykkjuboltum. Þá eru samningar að smella saman við Keith Richards um að taka að sér gestadómgæslu í úrslitaþættinum sem tekinn verður upp á Kaffi Austurstræti og sendur út beint á MTV. Þar hlýtur sá keppandi sem sporðrennir fimmföldum íslenskum brennivín í vatn án þess að depla auga nafnbótina Bacchus Islandiorum og mun svo þurfa að verja titilinn í næstu þáttaröð.
Vá, væri ég öflugur skipuleggjandi raunveruleikasjónvarps!?! Sennilega ekki.