Vorhret, bensínverð og f-orð Ögmundar

bensinverdMiklar sögur fara af stórviðrum á Íslandi sé ég á vefsíðum helstu fjölmiðla. Þrumur, eldingar og snjór. Faðir minn aldraður veðjaði greinilega á réttan hest þegar þau frúin keyptu sér ferð til Tenerife á dögunum. Brottför þangað var einmitt í morgun. Heppilegt að sitja á strandbar í Suður-Evrópu og sötra kokteila á meðan íslenskt vorhret gengur yfir með öllum sínum unaði.

Ég ræddi um það í pistli hérna um daginn að sennilega næðu Íslendingar Norðmönnum í bensínverði rétt fyrir jól miðað við krónutölu en lítrinn hér kostar tæpar 280 íslenskar krónur. Ég sé að ég hef sennilega haft kolrangt fyrir mér miðað við fréttir dagsins. Réttari spá væri væntanlega að þetta jafnvægi náist töluvert fyrr, eða um mitt sumar. Með fimm króna hækkunum hálfsmánaðarlega mun bensínlítrinn á Íslandi vera kominn í 280 kall eftir um það bil fjóra og hálfan mánuð. Í sumar verður ódýrara að fljúga til útlanda en að keyra til Akureyrar. Hvort ferðast Íslendingar þá innan landsins eða utan?

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra finnst mér öflugur náungi, rökfastur og fylginn sér. Ég hefði reyndar heldur viljað sjá hann sem félagsmálaráðherra miðað við þau kynstur af þekkingu og reynslu sem hann býr yfir frá samningaborðum BSRB en hann er ekki síðri í núverandi ráðuneyti. Ég var að horfa á spjall Ögmundar og Sigmars í Kastljósi frá því í gær og kom þar auðvitað fram alræmdur Ögmundar-frasi: ‘Þetta er forkastanlegt!’ Ögmundur hefur eignað sér þetta orðatiltæki alveg skuldlaust í fjölmiðlum. Ég tók nokkur viðtöl við kallinn á mínum blaðamannsferli og held að hann hafi komið f-orðinu fyrir í þeim öllum. Einna minnisstæðast er mér þegar ég hringdi í Ögmund vorið 2008, þá fyrir Vísi, til að inna hann álits á för Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar með einkaþotu á leiðtogafund NATO í Rúmeníu en vinsælt var að krækja í álit Ögmundar í fréttaflutningi af hvers kyns opinberu bruðli enda alla jafna á vísan að róa með beinskeyttar skoðanir.

Ögmundur var þarna enn þá formaður BSRB og staddur á miðjum átakafundi á Grettisgötunni. ‘Bíddu aðeins,’ sagði hann í gemsann á meðan hann ruddi sér auðheyranlega leið fram á gang. Bar ég þá upp spurninguna og fékk svo hnitmiðaðan málflutning að mér nægði að þakka fyrir og kveðja þegar Ögmundur lauk máli sínu en það hófst einmitt á orðunum ‘Mér finnst þetta forkastanlegt!’ Sko, ég fann þessa frétt meira að segja á Vísi.

Mikið er nú býsnast yfir skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Þegar ég var að alast upp þótti það jákvæður eiginleiki væru menn skipulagðir. Nú er þeim fundið allt til foráttu.

Athugasemdir

athugasemdir