Vor í lofti og væntanleg útför mín

solarupprasÍ morgun klukkan 07:23, þegar ég steig út úr mínum umdeilda strætisvagni númer 9 skammt frá höfuðstöðvum ConocoPhillips í Tananger, blasti við mér skínandi birturönd í austri, fyrstu merki væntanlegrar sólarupprásar sem svo hélt innreið sína upp úr klukkan 08. Þetta eru mikil tímamót og ég hef ávallt litið á það sem óræk vormerki þegar ég er farinn að mæta í vinnuna við sólroðið ský. Þá er stutt í langa sumardaga með blóm í haga og kalt hvítvín í glasi. Þetta yljaði mér í morgunkulinu og veitti deginum öllum einhverja aukna dýpt.

Við erum loksins búin að finna prest sem er tilbúinn að takast á hendur það stórvirki að gefa okkur saman í júní. Það var séra Bjarni Karlsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, sem samþykkti þetta síðastliðinn föstudag og ekki seinna að vænna þar sem við vorum að komast í þrot með presta. Séra Bjarni var þriðji maður á óskalista okkar yfir presta en hinir tveir báðust undan. Það var þó ekki af trúarástæðum heldur verður annar þeirra í sumarfríi en hinn hefur í heiðri þá grundvallarreglu að framkvæma ekki embættisverk í annarra presta kirkjum sem er sennilega bara virðingarvert. Við treystum okkur hins vegar ekki til að sleppa Hallgrímskirkju sem er eina íslenska kirkjan (og þótt víðar væri leitað auðvitað) sem hefur verið hverfiskirkjan okkar beggja…áður en við hófum sambúð það er að segja, nú orðið eigum við merkilegt nokk alltaf sömu hverfiskirkjuna.

Þetta er nú allt gott og blessað og fínt að vera komin með góðan prest í málið. Meðalmaður gengur ekki svo oft í það heilaga svo betra er að vanda sig. Ég hef verið í sambandi við góða manneskju hjá Hallgrímskirkju síðan ég bókaði kirkjuna og nú ritaði ég henni tölvupóst um helgina til að kanna hvort við værum ekki alveg gjörsamlega sammála um allar tímasetningar þar sem boðskortið fer nú fljótlega í hönnun hjá honum Inga Frey vini mínum og fyrrum samdyraverði á Nelly’s fyrir meira en áratug en hann er grafískur meistari.

Svar barst auðvitað um hæl og allt klappað og klárt í þessum málum eins og ég átti von á. Aftast í póstinum stóð svo feitletrað: Gott væri að fá nafn prestsins sem mun annast útförina svo ég geti sett nafnið í bókunina. Ég vona að þarna búi ekki að baki einhver spádómsgáfa bréfritara um yfirvofandi hjónaband mitt en sé svo þá er að minnsta kosti ekkert verið að fara í neinar grafgötur með skilaboðin.

Athugasemdir

athugasemdir