Því verður ekki logið á mig að ég fórni mér ekki á altari sannleikans. Eins og ég lofaði í gær birtast hér óvægnar myndir af því þegar andstyggilegur og framsækinn frumskógur bakhára var fjarlægður með vaxstrimlum við arininn í kvöld. Aðgerðin var framkvæmd án allra deyfandi lyfja og einungis með kaffibollann í hendi. Mér tókst meira að segja að taka myndirnar hjálparlaust þrátt fyrir grát og gnístran tanna. Sæluhrollur fór svo auðvitað um mig eftir á þegar ég var laus við þetta farg. Mér finnst ég allur léttari. (MYND: Þjáningin er fæðingarhríð skilningsins, segir í Spámanninum. Rósa kippir vaxstrimlinum af með þaulæfðri sveiflu.)
Ég var hreinlega farinn að ganga með veggjum síðustu daga og ekki duldist mér að fólk var farið að benda og stinga saman nefjum í ræktinni. Þessi ófögnuður er að ágerast eftir því sem árin líða svo nú verður bara farið í harkalegar vaxaðgerðir á sex vikna fresti. ‘Ber er hver að baki,’ eins og Kári Sölmundarson mælti. Þá eru nef- og eyrnahár farin að færa sig upp á skaftið. Hvaða vopn duga þar?
Einn öflugasti bakháramaður sem ég þekki er Ívar Örn vinur minn, eða kokkurinn eins og hann er kallaður í daglegu tali. Ívar er eins og hárkúla þegar hann er í hlýrabol og mjög merkileg sjón. Ég varð einu sinni fyrir því að sjá Ívar þannig klæddan þegar við vorum á ógurlegu djammi á Thomsen heitnum við Hafnarstræti vorið 2001. Fyrir aftan Ívar lýsti skær ljóskastari sem beindist að honum og lýsti bakhárin upp þannig að einna helst var að sjá sem þarna færi einhver skepna úr þjóðsögum Jóns Árnasonar. Það var mikil upplifun. (MYND: Taugakerfið tekur við sér sekúndubroti eftir brottnámið. Ópið eftir Edvard Munch má fara að vara sig.)
Hér er hreinlega komið vor. Í dag sat ég með kaffibolla úti í garði eftir vinnu í fyrsta sinn síðan í október. Sól skein í heiði og ekki bærðist hár á höfði (né á baki). Eins mátti greina dagskímu á himni þegar ég rölti í vinnuna klukkan 06:30 í morgun en mér finnst það alltaf jafnmikilvægur vorboði þegar maður fer að mæta í vinnuna í björtu, nokkuð sem ég fylgdist grannt með þegar ég bjó á íslandi. Þetta er svipað hér en auðvitað hjálpar að hafa sumar- og vetrartíma, þá birtir fyrr á morgnana þegar vetrartíminn er í gildi (samkvæmt klukkunni það er að segja, auðvitað birtir ekkert fyrr miðað við tímann sem skammtaeðlisfræðilega vídd, best að taka það fram til að fá ekki glósur raunvísindafasista yfir mig). Nú styttist í að klukkan verði færð fram um eina klukkustund fyrir sumarið, það verður aðfaranótt 27. mars. Þá verður klukkan þrjú þegar hún verður tvö og helgin klukkutíma styttri fyrir vikið. Einhverju verður að fórna. (MYND: Járnfrúin skoðar afraksturinn og glottir við tönn eins og Skarphéðinn Njálsson.)
Þá eru páskar, sumarfrí og alls konar unaðslegir hlutir fram undan. Sumarfrí án bakhára!!!