Þá er orðið ljóst hvar setið verður að drykkju í Portúgal í sumar en við vorum rétt í þessu að ganga frá 11 daga leigu á nýuppgerðri þriggja herbergja íbúð við ströndina í gamla bænum í Albufeira, um 35 kílómetra frá Faro, höfuðborg Algarve-héraðsins á suðurströndinni. Frá rúmgóðum sólpalli á þakinu er glæsilegt útsýni yfir Atlantshafið í allt annarri mynd en maður er vanur því hér norður frá.
Breska vefsíðan Owners Direct er býsna sniðug. Þar geta eigendur leiguíbúða á sumarleyfissvæðum auglýst íbúðir sínar og áhugasamir ferðalangar skrifað þeim beint, spurt spurninga og pantað. Bretinn sem á þessa íbúð virðist vera þægilegasti náungi, ekur gestum sínum til og frá flugvellinum, býr sjálfur steinsnar frá íbúðinni yfir sumarmánuðina og er til þjónustu reiðubúinn hvað alla almenna greiðasemi snertir. Verðið er 800 pund fyrir þennan tíma sem við verðum þarna og er sennilega sanngjarnt, tæpar 7.000 norskar.
Með þessu fást ákveðin þægindi og næði sem fæst hótel geta skákað, efst á blaði auðvitað að vera laus við að vera sífellt að þvælast innan um aðra gesti og fá ræstingagengið í heimsókn í tíma og ótíma auk þess að þurfa ævinlega að koma sér út á hádegi síðasta daginn sem jaðrar nú bara við ósvífni.
Eitt er að minnsta kosti á beinu og það er að sumarfríið 2013 verður ákaflega kærkomið eftir geðveikina sem núna stendur yfir í formi skóla, vinnu og bindindissemi. Ómissandi er auðvitað að verja rúmri viku í ekta íslensku sumri en við hlökkum ekki síður til að horfa yfir blátt hafið við Portúgalsstrendur gegnum suðræna gin og tónik-móðu í ellefu daga áður en Lundúnir vefja okkur konunglegum örmum sem lokaáfangastaður sumarflakksins í einum botnlausum vodka martini, hristum, ekki hrærðum (nei nú er ég bara að bulla, ég þoli ekki vodka martini).
Ég skal alveg slengja því fram hérna kinnroðalaust að ég ætla ekki að vera edrú eina sekúndu þessar þrjár vikur og mikið djöfull finnst mér ég eiga það skilið! Buddha talar um the end of suffering, það var mjög góður punktur hjá þér, Jón Indriðason, og nokkuð sem ég hef hugleitt í allan dag.