Pólitísk yfirlýsing? Nei, reyndar ekki. Þessi skoðun mín snertir hvorki vinstri græn né öðlingana í Samfylkingunni. Klósett vikunnar að þessu sinni fellur í skaut hinum þreytandi meðbræðrum okkar og -systrum í umferðinni sem hanga á vinstri akreininni langt undir eðlilegum umferðarhraða. Þetta er gjörsamlega galið fyrirbæri! Ég get nefnt endalaus dæmi um slík atvik í Ártúnsbrekkunni þegar ég er á leið heim í heiðardalinn hérna í Mosó. Þá gerist það iðulega að maður lendir fyrir aftan einhvern vangefinn góðborgara sem situr gjörsamlega í eigin hugarheimi bak við stýrið (ekki það að mér finnist bak við stýrið hentugt orðalag, er það sem er þar ekki mælaborðsmegin við stýrið?) og dólar á 60 upp brekkuna, ósnortinn af amstri og vandamálum samborgara sinna.
Ég er tiltölulega velsæmislegur náungi í umferðinni og flauta hvorki né blikka. Ég kem mér hins vegar fram úr hinum hægfara og það oft með ærinni fyrirhöfn, til dæmis með því að fara krókaleiðir alveg yfir á akreinina lengst til hægri, mjaka mér þar fram úr öðrum bifreiðum og svo hægt og bítandi til baka og yfir á upphafsakrein – nú fyrir framan vinstrimanninn. Það sem er svo allra mest óþolandi er svo að sjá fíflið ÞÁ FYRST fara að myndast við að skipta um akrein, þegar maður er löngu kominn fram úr! Hraðakstur er ekki helsta orsök umferðarslysa, það er hægakstur og í framhaldi af honum tilraunir eðlilegs fólks til að koma sér út úr fáránlegum umferðarteppum vitskertra sunnudagsökumanna eilífðarinnar.
Ívar Guðmunds var með fínan pistil um þetta á Bylgjunni í morgun sem mig minnir hreinlega að hafi komið frá einhverju opinberu umferðarstjórnvaldi. Honum lauk á þessari einföldu en frábæru lífsreglu: Ef einhver er að fara fram úr þér hægra megin ertu ekki á réttri akrein.
Sunnudagsvinstriökumenn allra landa. Gerið sjálfum ykkur og þjóðfélaginu greiða og náið þessu í eitt skipti fyrir öll!