Fyrstu viðbrögð þeirra sem þetta lesa eru ef til vill afneitun en þá er rétt að benda á að messías er dregið af hebreska orðinu mashiach sem þýðir ‘smurður’ eða ‘hinn smurði’. Hvernig tengist það mögulega starfsemi Skeljungs? Jú, þangað fór ég með aðra heimilisbifreiðina í smurningu í dag, þ.e. olíuskipti.
Varla væri ástæða til að drepa sérstaklega niður penna til að greina frá þessari ótrúlega hversdagslegu athöfn nema fyrir þá sök að reikningur fyrir þessa aðgerð, sem nam í tíma drykkju eins kaffibolla, hljóðaði upp á 13.819 krónur. Fyrir þessa upphæð mætti reka meðalstóra ríkisstofnun í næstum því þrjár mínútur.
Ég náði með herkjum að bæla niður ólgandi réttlætiskenndina innra með mér og þakkaði starfsfólkinu með þvinguðu brosi. Þegar ég skoðaði reikninginn í afneitunar- og vantrúarkasti sá ég að ofan í kaupið hafði ég fengið 10 prósenta afslátt af vinnu, tryggingu og olíunni sjálfri. Þeim sannleik er hér með komið á framfæri að einn lítri af Helix Ultra-smurolíu, unninni úr ævafornum leifum plantna, kostar einar 1.360 krónur. Því er freistandi að draga þá ályktun að smurolían hjá Skeljungi standi í einhverju sambandi við sjálfan guðdóminn.
Trúaðir hafa staðið á öndinni síðan um það bil árið 1000 og beðið endurkomu messíasar en þeir hjá Skeljungi mega bíða endurkomu minnar að minnsta kosti svo lengi, jafnvel lengur. Sú bifreið sem veitt var hinsta smurning í dag, hinn eðalborni Benz 420 SEL, síðasti fulltrúi og óumdeilt flaggskip þess tíma þegar menn kunnu enn að smíða bíla hjá Daimler-Benz, er nefnilega á leiðinni í frí. Á morgun verður honum veitt hinsta bón (sem vonandi kostar ekki milljón) og í kjölfarið leggst hann til hvílu án númeraplatna inni í bílskúr hjá mér.
Ætlun okkar hér á heimilinu er nefnilega að komast af með eina bifreið fyrst um sinn. Þegar tankfyllin á Benzinn er komin upp í verð rétt rúmlega tveggja 700 ml flaskna af Bombay Sapphire-eðalgini segi ég hingað og ekki lengra, einkum í ljósi þess að fákurinn drekkur meira en ég og þá er nú mikið sagt. Lauslega má áætla að sparnaður vegna þessa nemi tæplega 60.000 krónum á mánuði að teknu tilliti til ábyrgðar- og húftryggingar, eldsneytis og viðhalds á ársgrundvelli.
Ég legg því mitt lóð á vogarskál kreppuniðurskurðar og kolefnisjafna um leið allrækilega því 4,2 lítra V8-bílvél leggur sitt af mörkunum til gróðurhúsaáhrifa þegar ekið er milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar allt að því fjórum sinnum yfir daginn vegna vinnu og skóla. Ég er grænni en Framsóknarflokkurinn.