Vindöld, vargöld áðr veröld steypist…

kissiiÞetta er aldeilis búin að vera helgi, Ásgeir Elíasson og Jóna Dís kona hans mættu hér á föstudaginn, hann til að vera en hún heldur til baka til lands elds og ísa á miðvikudaginn og mætir svo stundvíslega með synina tvo í september. Fyrir þá lesendur sem átta sig ekki á hvaða fólk er rætt um var Ásgeir svaramaðurinn í brúðkaupinu mínu á Íslandi í fyrrasumar ef einhver man eftir því gegnum ölvímuna.

Hápunkturinn í þessu öllu saman voru tónleikar förðunarfræðinganna í KISS á Viking Stadion í gærkvöldi, gríðarlega vel heppnuð samkoma þar sem einstakt veður og ljúfir tónar léku við áheyrendur sem voru einhvers staðar á milli 22 og 25 þúsund, ég sé ekki að neinn norskur fjölmiðill hafi haft metnað í að koma frá sér mannfjöldatölum þrátt fyrir annars metnaðarfulla umfjöllun Stavanger Aftenblad um viðburðinn.

Upphitunarteiti fór fram hjá okkur í Sandnes City og klukkan 18:30 tóku viðstaddir lestina niður í Jåttåvågen og var ölvun töluverð um borð þrátt fyrir blátt bann við neyslu áfengis og lyfja í lestum NSB, aldrei getur sauðsvartur almúginn virt nokkurn skapan hlut og þá síst við Gestur Ben Guðmundsson sem sulgum drjúgt úr pela af Amundsen-vodka sem hann hafði undir höndum.

Eftir frækilega upphitun norsku metalsveitarinnar Kvelertak stigu Paul Stanley og félagar á svið og stóðu sig með eindæmum vel þrátt fyrir um það bil 61 árs meðalaldur sveitarinnar (sem er svo sem ekki neitt). Allir helstu slagararnir voru leiknir þarna og áhorfendur greinilega vel með á nótunum, náðist að klappa félagana upp einu sinni áður en þeir kvöddu Stavanger með virktum.

kissiiiÁ tónleikunum rakst ég á Siv Karin Malmin, yfirhjúkrunarfræðing á gjörgæsludeild Stavanger universitetssykehus, fyrsta vinnustaðar okkar hér í landinu, og urðu miklir fagnaðarfundir. Minningarnar frá sumarstarfi okkar hjónanna á SUS 2010 eru lævi blandnar og upp í hugann komu hugleiðingar mínar síðan í ágúst það ár þegar við höfðum ekki hugmynd um hvort eða hvar við kæmum til með að hafa vinnu á haustmánuðum, nýbúin að taka á leigu raðhús fyrir 13.000 krónur á mánuði. Allt fór það nú á besta veg en enginn veit sína ævina. (MYND: Við Gestur Ben Guðmundsson í góðum gír á tónleikasvæðinu og ekkert gefið eftir. Ég get ekki skýrt hvers vegna ég held á einhverju sem virðist vera bjór en hvítvín var eina áfengið sem ég neytti á samkomunni.)

Frábært kvöld hvað sem öðru líður og þótti ekki annað tækt en að halda gleðskapnum áfram fram undir morgun eftir að komið var til baka til Sandnes, enda rock and roll all night boðskapur sem KISS hefur lagt sig í líma við að breiða út til heimsbyggðarinnar á ágætum 40 ára ferli sínum. Verður maður þá ekki að reyna að uppfylla þá lágmarkskröfu?

Athugasemdir

athugasemdir