Víkkandi sjóndeildarhringur á vinnumarkaði

conocophillipsÖr þróun í atvinnumálum einkennir upphafsdaga ársins 2012 en frá og með 4. janúar er ég handgenginn bandaríska olíurisanum ConocoPhillips, fimmta stærsta einkarekna orkufyrirtæki heims sem að sjálfsögðu lætur ekki sitt eftir liggja í Norðursjónum og er með rúmlega 20 virka borpalla, flesta á Ekofisk-svæðinu 320 kílómetra suðvestur af Stavanger.

Ég er þó ekki starfsmaður ConocoPhillips heldur leigja þeir mig af NorSea Group sem er hvort tveggja öruggara og þægilegra en að standa í eigin ráðningum. Fyrirtækið ræður í raun sárafáa eins og sjá má af því að starfsmenn þess eru innan við 30.000 þrátt fyrir starfsemi í 40 löndum og 22. sæti á Global 2000-lista Forbes. Með innleigðu vinnuafli er komist hjá leiðindaveseni eins og uppsögnum á niðursveiflutímum svo þetta er í raun þægilegasta fyrirkomulagið…svo lengi sem óbrjálað starfsfólk til leigu finnst einhvers staðar.

Sagan á bak við þennan flutning er ekki löng. Ég var leigður til Conoco í nokkra daga fyrir jól og strax á þriðja degi var farið að bera í mig víurnar og barst óformlegt tilboð sem ég var beðinn að íhuga yfir jólin. Ég man reyndar ekki eftir að hafa hugsað mikið út í þetta akkúrat um jólin, var eiginlega búinn að ákveða fljótlega að láta slag standa. Ekki er svo sem um mikinn flutning að ræða, ConocoPhillips er með alla sína aðstöðu úti í Tananger, nákvæmlega 250 metra frá fyrra vinnusvæði mínu hjá NorSea. Hins vegar stendur mér nú til boða aðgengi að mötuneyti ConocoPhillips sem er gallharðasta veisluþjónusta sem ég hef komið nálægt á nokkrum vinnustað. Þá bjóða þeir upp á sundlaug og líkamsræktaraðstöðu í kjallara höfuðstöðvanna og síðast en ekki síst ókeypis rútuakstur til og frá vinnu. Það verður nú að segjast að Kanarnir kunna alveg lagið á því að láta fólki líða þokkalega í vinnunni hvað sem annars er um þá sagt.

Þetta hefur verið spennandi fram að þessu, nú snýst starf mitt nánast eingöngu um að senda rör, birgðir og búnað út á palla ConocoPhillips með flutningaskipum þeirra og taka við þessu í land aftur. Skipaumferðin er nánast látlaus enda er starfsemi fyrirtækisins í Norðursjónum gríðarlega umfangsmikil og verður sennilega allt til ársins 2050.

Annars hef ég nú migið ryki í hálfan mánuð en eins og kunnugir þekkja hófst árlegt áfengisbindindi mitt um áramótin og er ég nú með öllu frábitinn nautn áfengra drykkja um þriggja mánaða skeið. Jú, rétt til getið, þarna er um að ræða lengra tímabil en hina hefðbundnu tvo mánuði og gera áætlanir ráð fyrir að ég smakki það næst á 38 ára afmælisdaginn minn, föstudaginn 30. mars. Í staðinn fyrir samneyti við Bakkus konung fara helgarnar nú í aukavinnuna en ég hóf störf við dyravörslu á vegum PSS í fyrradag. Ég á aðeins eftir að ljúka einu 48 tíma námskeiði til að fá allar gæðavottanir sem ég þarf á þeim bænum og sit ég það nú hjá Securitas hér í bæ þessa og næstu tvær helgar frá 9 til 17. Þetta þarf að klárast fyrir 1. apríl þegar ný lög um öryggisfyrirtæki taka gildi og réttindin krefjast sex mánaða skólagöngu. Kem betur inn á öfgar Norðmanna í öryggisgæslu í næsta pistli.

Athugasemdir

athugasemdir