Við vorum einu sinni á kennderíi fyrir 45 árum…

Svona hljómaði ein af ótal drykkjusögum Braga snillings Kristjónssonar sem rekur musterið Bókavörðuna en Bragi var með fastan pistil p8180256sinn í Kilju Egils Helgasonar í kvöld. Önnur saga hans hófst á orðunum  „Einu sinni vantaði okkur brennivín og hvað heldurðu maður…  “. Bragi er algjör þjóðargersemi og ætti að vera búinn að fá margar fálkaorður. Þetta er stórfróður maður, sögumaður á pari við ég veit ekki hvað og því miður af deyjandi stétt bókabrjálæðinga en í þá stétt stimpla ég sjálfur mig inn – og það fast. (MYND: Bakkus blótaður á fagurri búlgarskri strönd í ágúst 2007/Óþekktur barþjónn.)

Auk Braga heimsóttu Egil margir góðir menn í Kilju kvöldsins. Að öðrum ólöstuðum nefni ég þar Ólaf Ormsson rithöfund og einkum og sér í lagi finnska skáldið Tabio Koivukari. Magnað var að heyra tök hans á tungu okkar Íslendinga og enn fremur náði hann að varpa fram einni drykkjusögu um Íslending sem þambaði heila brennivínsflösku áður en hann spurði hvort þeir ættu nú ekki að detta í það.

Þar er löndum mínum vel lýst en ég verð að játa að sjálfur hef ég reynt óheilindi Finna í þeirra eigin drykkjusögum. Sú var tíðin að ég nam blaðamennsku við Háskólann í Helsinki, nánar tiltekið blaðamennskudeild skólans sem ber hinn göfuga titil Svenska social- och kommunalhögskolen. Skólinn stendur við Topeliuksenkatu númer 16 sem að sjálfsögðu heitir í höfuð hins finnsk-sænska kraftaskálds Zachariusar Topelius sem Matthías Jochumsson þýddi á íslensku fyrir margt löngu.

Þarna sat ég á vorönn 2003 og sór mig í ætt hinna íslensku. Ég drakk 80 prósenta sterkt vodka frá Eistlandi sem hét Hundijala Vesi (hundvatn) og skirrðist ekki við að taka ferjuna frá Bálagarðssíðu yfir Finnska flóa og smygla heilu bakpokunum af þessari vöru frá Tallinn til Helsinki en í Tallinn kostaði hálfur lítri sem þá nam 452 íslenskum krónum. Auk þess mátti maður smakka mjöðinn áður en maður keypti í Tallinn, eitthvað sem ÁTVR tæki seint og illa upp, aðallega seint.

Við drukkum sem sagt sem enginn væri morgundagurinn og þarna lagði ég stund á karate með karatefélagi tækniskólans í Esboo (mjög undarleg bygging nálægt höfuðstöðvum Nokia). Þetta voru nú kannski engir naglar, mest hálfbjánar og fjölskyldufólk, en ég bar á þessum tíma brúnt belti frá Þórshamri á Íslandi og var tilbúinn í allt nema giftingu, dauða og lélega sturtuaðstöðu.

Þar af leiðandi fagnaði ég ákaflega þegar karatefélagið blés loks til sauna-kvölds í febrúar 2003. Jæja, þar mætast stálin stinn, hugsaði ég og fann til netts kvíða. Ég eggjaði Lars Wennerström, sænskan sjónvarpsfréttamann sem var með mér í bekk og taldist harðasti drykkjumaður bekkjarins fyrir utan mig, til að koma með mér á kvöldið. Hann samþykkti þetta með tárin í augunum.

„Lars, þeir hlæja að okkur þangað til við sjáum botninn á fyrstu vodkaflöskunni! “ sagði ég alvöruþrunginn við Lars og veifaði framan í hann fjórum flöskum af 80 prósent Hundijala Vesi. Við vorum í sporvagni á leið í teitina og glímuskjálftinn kominn í okkur. „Deyjum alla vega með sæmd! “ öskraði ég á lélegri sænsku og Lars hefur ábyggilega haldið að ég væri að spyrja hvernig ömmu hans liði en hún hafði dáið áratugum áður.

Sannleikurinn var mestu vonbrigði síðan Jimmy Carter varð forseti Bandaríkjanna. Þegar upp var staðið vorum við einu mennirnir í samkvæminu sem komum með áfengi (fyrir utan einhvern hálfvita frá finnsku hagstofunni sem sagðist hafa komið til Selfoss 1981 og var með einn bjór – sem hann drakk svo ekki). Hinir skiptust á að troða í sig óætum finnskum pylsum og sitja inni í gufubaðinu enda bar vaxtarlag þeirra glöggt vitni þess að þeir gerðu ekki annað.

Ég gekk út úr sal karatefélags tækniskólans í Esboo grátandi þetta kvöld. Finnar og þeirra meinta drykkja er stærsta blekking heimsbyggðarinnar fyrir utan Icesave-samninga Landsbankans. Þegar ég, á barmi örvæntingar, krafði viðstadda um skýringar á botnlausum sögum þeirra um stífustu drykkju mannkyns var mér bent á einhverja bændadurga norður í Lapplandi sem fengju sér víst í glös annað slagið. Hinir snertu helst ekki vín nema kannski einn bjór mánaðarlega. Þarna hrundi mín finnska heimsmynd til grunna.

Og ég hélt að þetta væru drykkjumenn…

Athugasemdir

athugasemdir