Við áramót

ramtKlukkan 18:23 í kvöld hófst langþráð jóla-/áramótafrí mitt formlega eftir harðasta vinnumánuð sem litið hefur dagsins ljós í lífi mínu eftir að ég flutti til Noregs, 88 yfirvinnutíma og þar af mjög marga með hátíðar-, stórhátíðar- og stórstórhátíðarálagi. Feit útborgun sem sagt í vændum í janúar og veitir ekki af með rándýrt nám í vændum og alls kyns útgjöld önnur. Merkilegt hvað lífið getur verið dýrt.

Ég mæti næst til vinnu föstudagsmorguninn 4. janúar, eftir fimm daga, sem nemur heilu páskafríi og verður án efa álíka sterk trúarupplifun fyrir mig og páskarnir en þá biðst ég alla jafna fyrir frá morgni til kvölds og sæki mér styrk frá almættinu.

Við ætlum að nota okkur frídagana til að skoða listasöfn í Amsterdam en þangað höldum við með atbeina flugfélagsins Norwegian klukkan 17:40 á morgun með stuttu stoppi á Gardermoen í Ósló (KLM flýgur bara beint milli Stavanger og Amsterdam á sumrin). Við lendum svo hér á ný 3. janúar og hefjum nám í bor- og brunntækni hjá Offshoreutdanning.no daginn eftir samhliða fullu starfi. Þurfum meira að segja að kaupa okkur vasareikni, reglustiku og blýant fyrir námið svo gamli grunnskólaandinn er skammt undan. Ef þetta nám kostaði ekki rúmar tvær milljónir á hvort okkar liði mér eins og ég væri að hefja grunnskólanám aftur!

Þessar línur mynda síðasta pistil ársins 2012. Ekki fara langt því næst á dagskrá er annáll ársins sem birtist hér á fyrstu dögum 2013 en þar verða hápunktar meints heimsendaárs teknir fyrir, tæklaðir, greindir og gaumgæfðir í máli og myndum að hætti atlisteinn.is, þar sem sannleikurinn er í hávegum hafður en hálfsannleikur þó oft aðeins betri en lygi.

Gleðilegt ár gott fólk og passið ykkur á brennivíni, flugeldum og silfurhærðum forsætisráðherrum.

Athugasemdir

athugasemdir