Vefsetrið atlisteinn.is óskar lesendum, vinum og velunnurum hvarvetna gleðilegra jóla og farsæls komandi árs og þakkar innilega fyrir gnótt góðra athugasemda og jákvæðra skilaboða á árinu sem er að líða. Lengra komumst við nú ekki að þessu sinni…eins og segir í gamalli og góðri áramótaauglýsingu sem öruggt er að margir lesendur muna eftir en um leið get ég deilt því með ykkur…
…að D-vaktin alræmda á einmitt viku 52 en slapp betur en nokkru sinni. Við svitnuðum á kæjanum til klukkan 22 á Þorláksmessu en þá blés sem aldrei fyrr og lágu spár þannig að óljóst var hvort veður leyfði lestun birgðaskipa á aðfangadag. Fór þó svo að lestun hófst klukkan 10 á aðfangadagsmorgun og hömuðust menn í roki og rigningu til 15:53 en þá náðist sú óskastaða að flotinn ósigrandi, sjö skip, var allur lestaður og kominn út í Norðursjóinn þar sem hann bíður losunar en ölduhæð á Ekofisk-svæðinu var 12 metrar á aðfangadag sem er nokkrum mannhæðum yfir því sem leyfilegt er við kranavinnu þar á bæ. Spyrjum að leikslokum en þetta gerði það að verkum að D-gengið átti frí jóladag og annan í jólum og þarf ekki að hafa áhyggjur af lífinu frekar fyrr en eftir almennan vinnudag klukkan 16:00 á morgun þegar við stormum út á kæjann og tökum örlögum okkar brosandi. Sennilega miðnætti á morgun og svo 15 tímar á laugardag en að því loknu flýg ég til Íslands á sunnudaginn og gleðst því í hjarta mínu en guðspjallamaðurinn sagði einmitt…
…því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, þér munið finna ungbarn reifað og lagt í jötu og svo framvegis. Það er nú reyndar það síðasta sem ég myndi vilja finna á athafnasvæði ConocoPhillips nokkurs staðar í heiminum en auðvitað er það hugsunin sem telur og engin hætta á öðru en að nóg verði að lesa hér á heimilinu næstu vikurnar því…
…við fengum bæði Arnald, Jón Kalman og Stefán Mána í jólagjöf auk verulega lofandi frumburðar nýs íslensks rithöfundar, Jóns Óttars Ólafssonar afbrotafræðings, glæpasögunnar Hlustað sem ég er búinn að vera að þjófstarta aðeins og verð að játa að ég hélt að strákurinn hefði ekki slíka textasmíð í sér en Jón Óttar er góður kunningi minn og auk þess bróðir hins geðþekka pípulagningameistara og íslenskufræðings Karls Óskars Ólafssonar sem ég var svo lánsamur að kynnast á ofanverðum síðasta tug liðinnar aldar við íslenskunám í háskóla allra landsmanna vestur á Melum en Kalli er krónískur áhugamaður um gerviþolmynd eins og ég, þannig að… (MYND: Það var ekkert jólalegt á kæjanum á aðfangadag en okkur Jimmy Løtoft var alveg sama um það því gleðin býr í hjarta okkar./Chris Brandsøy)
…heimurinn er lítill en að sama skapi voru viðbrögð föður míns stór þegar hann tók utan af móður allra jólagjafa frá okkur Rósu til þeirra hjóna, öllum sex þáttaröðum Breaking Bad í einum pakka og eins og hann orðaði það í símtali síðar á aðfangadagskvöld “Hva…hvað er þetta eiginlega þessar spólur sem þú varst að senda okkur drengur!??”. Eftir að ég hafði útskýrt fyrir honum að DVD-diskurinn hefði leyst hina góðkunnu myndbandsspólu af fyrir margt löngu tjáði ég honum að þarna hefði hann í höndum sér sögu barnakennarans Walter White sem var svo ólánssamur að greinast með krabbamein og ákveða í framhaldinu að hefja framleiðslu metamfetamíns enda ekkert eðlilegra undir þeim kringumstæðum enda tók faðir minn aldraður undir það og sagði “Nú já, það var gott hjá honum!” og svo kvöddumst við en…
…á sunnudaginn kem ég til Íslands til að upplifa ekta íslensk áramót, hlýða á ávarp forsætisráðherra og horfa á Áramótaskaup Ríkisútvarpsins þar sem “stjörnur og stórmál ársins verða skoðuð í spaugilegu ljósi,” eins og Rósa Ingólfsdóttir þula kynnti Áramótaskaupið 1984 en þangað til og um alla framtíð bið ég ykkur öll vel að lifa og megi almættið bjóða ykkur upp á…
…hreint stórkostlegt 2014 og við sjáumst vonandi sem flest á því magnaða ári þegar ég verð…
…fertugur, shit, og ástarkveðjur frá…
…ritstjórn atlisteinn.is eins og hún leggur sig en hún birtist hér á ný snemma í janúar með óvönduðu málfari, leiðinlegum kveðskap og hæpnum fullyrðingum eins og henni einni er lagið. Þangað til…
…lifið heil.