Verslað með Eistum og önnur finnsk menningaráföll

Vísa sem Sighvatur Þórarson, hirðskáld Ólafs helga Noregskonungs, orti um gjörsamlega misheppnaða innrás í Finnland hljómar svona:

Hríð varð stáls í stríðridrykkja
ströng Herdalagöngu
Finnlendinga að fundi
fylkis niðs in þriðja.
En austr við lá leysti
leið víkinga skeiðar.
Bálagarðs að barði
brimskíðum lá síða.

Fjallar vísan í stuttu og stóreinfölduðu máli um það þegar Ólafur helgi gerði árás á Finna en þeim, sem þyrstir í frekari fróðleik um þennan atburð, er bent á sögu Ólafs helga í Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Þegar þessi saga gerist, fyrir þúsund árum, voru Finnar nefnilega rammgöldróttir og almennt frekar lítt við alþýðuskap. Þetta var áður en þeir urðu lýðveldi og kusu sér lesbíuna og kjarnakonuna Törju Halonen sem forseta (nafnið hefur ekkert með halogenperur að gera).

Finnar mögnuðu sem sagt upp mikið gjörningaveður með fjölkynngi sinni og Ólafur og föruneyti rétt mörðu að sigla fyrir Bálagarðssíðu sem suðvesturströnd Finnlands hét í íslenskum bókum fornum og ég persónulega tel magnaðasta örnefni sem menn hafa sett saman á norræna tungu.

Snyrtilegt heiti yfir dagdrykkju
En ekki stóð til að rita hér forna annála heldur langar mig að segja frá árinu sem ég komst að því að Finnar eru hreinustu kellingar heima hjá sér þegar kemur að drykkju hvað svo sem þeir gera í heimsóknum til annarra landa. Vorið 2003 nam ég blaðamennsku við Háskólann í Helsinki sem Nordplus-skiptinemi sem er svona snyrtilegt heiti yfir dagdrykkju. Þetta var í alla staði skemmtilegt en þarna komst ég að því að Finnar virðast almennt vera endurvinnslustöðvar fyrir bjór og það frekar lítið af honum (ég drekk ekki bjór frekar en að ég er á Facebook og lít almennt ekki á bjór sem áfengi).

Til að gera langa og ekkert mjög skemmtilega sjóferðasögu stutta gerði ég mér leik að því að sigla frá Bálagarðssíðu og yfir Finnska flóa til Tallinn í landi Eista. Þar heimsótti ég mjög svo framúrstefnulegar áfengisverslanir og náði í fyrsta sinn á ævinni að versla með Eistum (þó ekki þessum tveimur). Eistar eru skemmtileg þjóð og gamli bærinn í Tallinn er eitthvað sem er hrein vitfirring að heimsækja ekki einhvern tímann á ævinni. Tilgangur ferða minna var að kaupa tugi pela af 80% eistnesku vodka sem ber heitið Hundijala Vesi og kostaði á gengi ársins 2003 493 krónur pelinn. Þetta flutti ég svo til baka til Heljarsinkis og drakk ótæpilega.

Svo kom að því að mér var boðið í fyrstu teiti sem eingöngu Finnar stóðu fyrir (flestir í bekknum mínum voru Svíar). Þannig háttaði til að ég æfði karate með karatefélagi Tækniháskólans í Espoo og þar auglýstu menn svokallað Sauna-kvöld. ‘Jæja,’ hugsaði ég, ‘nú er þetta búið. Nú þarf ég að bíða þá ömurð að lúta í lægra haldi fyrir sjálfum Finnum í sauna-drykkju.’ Ég taldi það þó huggun harmi gegn að þetta voru Finnar, sjálfur Rolls Royce drykkju alls heimsins.

Ekki hugði ég þó á að gefast upp bardagalaust. Ég kvaddi harðasta drykkjumann bekkjarins, sænska sjónvarpsfréttamanninn Lars Wennerström, með mér og klyfjaðir 80% vodka mættum við á svæðið. Við vorum búnir að ákveða að hinir innfæddu hlægju að okkur þangað til við sæjum botninn á fyrstu flöskunni og vorum einbeittir í þeirri stefnu að deyja ekki áfengisdauða fyrr en það næðist. Leikar fóru svo að fyrir utan það sem við drukkum rann nákvæmlega einn bjór ofan í aðra menn…eða reyndar bara einn mann á svæðinu. Hinir voru of uppteknir við að troða í sig mat og liggja þess á milli í þúsund gráða heitu gufubaði. Það var þeirra víma.

Þá bitu engin vopn
Ég brotnaði gjörsamlega saman. Þetta var þá finnska goðsögnin: ‘Tveir hættulegir stórglæpamenn dulbúnir sem gamlar konur. Og þeir stungu ykkur af á Skóda. Ætlist þið til að ég trúi þessu piltar?’ Setningin er auðvitað fengin að láni úr Löggulífi Þráins Bertlessonar en á samt við í þessu tilfelli. Svona drekka Finnar sem sagt heima hjá sér í Finnlandi, ekki bara karatefélagar mínir heldur flestir Finnar sem urðu á vegi mínum. Ég leyfi mér að fullyrða að ég hafi drukkið manna mest í Finnlandi tímabilið janúar til maí 2003. Auðvitað meðmæli en alls ekki það sem ég bjóst við.

Ég spurði þessa annáluðu þjóð ölvunar og áfengisdauða hverju þetta sætti og ekki stóð á svarinu. Það eru þá aðallega stórháskalegir bændur í Norður-Finnlandi sem halda drykkju þjóðarinnar uppi. Þeir brugga baneitraðan landa sem gengur undir heitinu musha (frb. músja) og þamba þessa framleiðslu sína nótt sem nýtan dag. Í höfuðborginni Helsinki hins vegar má finna penustu drykkjumenn jarðar. Öðruvísi mér áður brá. Úr þessari helför sneri ég heim með lifur sem einna mest líktist íslenskri líparíthellu en ég lifði. Álit mitt á Finnum dó hins vegar.

Athugasemdir

athugasemdir