Verkföll, bros og chillisósa

skiltiEkki munaði nema hársbreidd að við byrjuðum feril okkar á Háskólasjúkrahúsinu í Stavanger í verkfalli! Í fyrramálið (föstudag) skellur fjölmennasta verkfall í 30 ár á öllum Noregi þegar tæplega 20.000 starfsmenn sveitarfélaga leggja niður störf. Aðallega er um að ræða leikskólakennara, kennara og hjúkrunarfræðinga en ræstingafólk á vegum sveitarfélaga var einnig á leið í verkfall. Sá hópur náði þó samningum við vinnuveitendur núna fyrir nokkrum klukkutímum. Við mætum því í vinnuna á mánudaginn sem betur fer og erum hreinlega mjög spennt að fara að gera eitthvað eftir atvinnuleysið á Íslandi. (MYND: Orðalagið á sumum skiltum hérna er alveg bráðsmellið.)

Í fréttum norska ríkisútvarpsins NRK í kvöld var rætt um þann vanda sem steðja myndi að vissum löndum ef þau sigruðu í Eurovision á laugardag. Voru Ísland, Grikkland og Spánn sérstaklega nefnd til sögunnar. Þetta er engum ofsögum sagt. Þótt Norðmenn séu mikið Eurovision-fólk eru háværar óánægjuraddir farnar að heyrast hér vegna óheyrilegs kostnaðar við að halda keppnina en hann er um 200 milljónir norskra króna, rúmir fjórir milljarðar íslenskra. Til samanburðar má geta þess að ársvelta RÚV er um tveir milljarðar króna. NRK hefur fyrir vikið þurft að hverfa frá fjölda útsendinga af íþróttaviðburðum sem skiljanlega leggst misvel í þjóðina.

Við duttum inn í alveg suddalega flotta verslun fyrir vitfirringa eins og okkur sem elska taílenskan og kínverskan mat og sósur og krydd sem geta brætt sig gegnum borðplötu. Þetta er Internasjonalt mat í verslunarmiðstöðinni Kvadrat sem er hérna rétt hjá okkur. Við fylltum heilan poka af sósum, kryddi og gumsi og afgreiðslumaðurinn varð svo heltekinn af þessum áhuga okkar að hann fór að gefa okkur að smakka af hinu og þessu. Af hverju gerist það aldrei í ríkinu?? Útkoman er alla vega fullur skápur af ætandi efnum á borð við Sriracha Super Hot Chilli Sauce frá Chonburi í Taílandi. Þetta er næsta stig fyrir ofan Sriracha-sósuna sem fæst á Íslandi og er yfirleitt sú sterkasta í boði á taílenskum veitingastöðum þar. Við prófuðum varninginn á kjúklingi sem lést samstundis.
corrosive.jpg
Kvadrat er annars fyrirbæri út af fyrir sig. Þetta er gríðarstór verslunarmiðstöð sem er svo illa skipulögð að maður veit nákvæmlega aldrei hvar maður er fyrr en maður kemur út. Húsið teygir sig í allar áttir en aldrei býðst nein yfirsýn, maður sér bara svæðið sem maður er staddur á. Þó guma þeir af slagorðinu Du leter ikke. Du finner. Í öllum okkar heimsóknum þangað hefur það akkúrat verið öfugt. Í fyrsta skiptið komum við bara til að fara í ríkið en leituðum svo lengi að það var búið að loka því. Raunar fundum við það aldrei heldur sögðu konurnar á upplýsingaborðinu okkur að þetta væri vonlaus barátta, það væri löngu búið að loka. Næst, á laugardaginn var, fundum við ríkið en vissum ekki að ríki hér í Noregi eru lokuð á laugardögum um páska og hvítasunnuhelgi svo þar fór það. Hvað gerist næst?

Ég tek ofan fyrir uppsögn Steinunnar Valdísar í dag (og Steinunni sjálfri auðvitað). Ég sé að Þórunn Valdimarsdóttir segir á Vísi að hún vonist til að þingmenn í öðrum flokkum hugsi sinn gang. Því er ég sammála en bæti því við að fleiri þingmenn Samfylkingarinnar mættu hugsa gang sinn vel og rækilega með afsögn í huga. Efst á þeim lista er silfurrefurinn sjálfur sem hafði af mér atkvæði í síðustu þingkosningum. Ég hefði skilað auðu ef ekki hefði verið fyrir loforðavaðalinn úr henni sem aldeilis reyndist innstæðulaus…og yfirdráttarheimildin engin. Ég treysti á Gnarrflokkinn í næstu þingkosningum, það yrði rækileg hreinsun ef marka má viðtökurnar í borginni núna. Hér verður gin & tónik á borðum á laugardaginn þegar sá rauðhærði mokar út úr ráðhúsinu. X-Æ, vår kunnskap, din trygghet (ég er með þetta slagorð á heilanum, þetta er frá einhverju tölvufyrirtæki hérna).

Athugasemdir

athugasemdir