En sniðugt hjá verðlagsnefnd búvara. Samkvæmt þessari frétt Vísis hækka mjólkurvörur um 4,25 prósent í verði 1. júlí. Skemmtileg tilviljun er tölvupóstur sem ég fékk frá Blaðamannafélagi Íslands í gær með þessum fréttum (birt er brot af heildartexta):
Öll laun og kjaratengdir liðir hækka um 4,25% frá og með 1. júní sl. Það þýðir að þeir sem eru á fyrirframgreiddum launum fá um næstu mánaðamót leiðréttingu á launagreiðslu vegna júní og hækkun launagreiðslu vegna júlí. Þeir sem eru á eftirágreiddum launum fá hækkun upp á 4,25%. (MYND: Vísir/365, úr safni.)
Þarna gleymist að fjalla um einn þjóðfélagshóp: þá sem kaupa mjólk. Þeir fá því miður núll prósent hækkun þar sem allar sniðugu verðlagsnefndirnar í haftalýðveldinu Íslandi passa að hækka allar vörur sem þær fjalla um nákvæmlega jafnmikið og launin hækka. Þannig er gulltryggt að enginn fái neitt, þar af fái sem flestir minnst og þar af sumir ekkert. Ég elska að fylgjast með þessu þjóðfélagi…úr fjarlægð.
Samt kem ég til Íslands ekki á morgun heldur hinn. En ég á ekki lögheimili á Íslandi þannig að höftin ná ekki til mín.
Frænka mín Guðlaug Elísa Kristinsdóttir, a.k.a. Gulla frænka, er sjötug í dag, 22. júní. Við færum henni innilegar hamingjuóskir á merkum degi vitandi að hún lúsles síðuna mína. Gulla frænka er svakalegt eintak. Barn að aldri lék hún hand- og fótbolta með meistaraflokkum FH og sumarið sem ég var átta ára, 1982, dró hún mig með á vikulangt skíðanámskeið í Kerlingarfjöllum þar sem ég lærði grunnstöður skíðaíþróttarinnar og brunaði um ár og síð. Sumarið 1984, þegar við fjölskyldan gistum á Edduhótelinu í Húsmæðraskólanum á Laugarvatni og flestir hinna fullorðnu sátu á bar hótelsins, hlupum við Gulla upp á næsta fjall um miðja nótt og blés hún hvergi úr nös, þá 43 ára gömul. Þegar við komum til baka þurftum við að knýja dyra á hótelinu og vekja stýruna til að láta hleypa okkur inn. Sátu margir þá enn á barnum, þar á meðal faðir minn.
Til hamingju með daginn Gulla, þú átt engan þinn líka!