Margt slungið gat að líta og heyra í fjölmiðlum í gær og í dag. Þar má til dæmis fyrst bera niður í grein um kynlíf nágranna á neytendasíðu DV þar sem Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, svarar fyrirspurnum lesenda. Kona í Vesturbænum skrifar og lýsir hávaða frá kynlífsathöfnum nágranna í húsinu þannig, að einna líkast sé því að verið sé að slíta í sundur kött (hefur hún heyrt það gert?!?). Svo kemur þessi gullvæga setning: ‘Ég tek fram að ég er frjálslynd og pjattlaus í kynferðismálum enda ekki alveg syndlaus sjálf. Ég hef átt mína spretti og var forðum í Menntaskólanum við Tjörnina.’ Ekki veit ég hvort túlka beri þetta sem einhvern ægilegan áfellisdóm yfir Menntaskólanum við Tjörnina eða hvort fólk þaðan eigi að teljast víðsýnna og fordómalausara en aðrir.
Ekki er upphaf svars Sigurðar síður athygli vert sem hefst á þessum orðum: ‘Það er margt sem bendir til að kynlíf sé stundað í allríkum mæli í fjöleignarhúsum og hefur svo verið frá öðli alda.’ Sigurður vísar ekki í rannsóknir máli sínu til stuðnings en óneitanlega vaknar sú spurning hvort mikill munur sé á kynhegðun fólks í fjölbýli og einbýli. Enn merkilegra er ef þetta hefur verið mælt frá ‘öðli alda’.
Annað var ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um Steingrím Hermannsson sem féll frá í gær á níræðisaldri. Í fréttum Stöðvar 2 sagði Sigmundur um Steingrím: ‘[Steingrímur] sýndi oft á sér mannlegar hliðar…’ Algjörlega burtséð frá persónu Steingríms, sem var sveitungi minn í Garðabænum og ég kunni ávallt vel við, þykir mér það sérstakt að núverandi formaður Framsóknarflokksins hafi séð ástæðu til að taka það sérstaklega fram, eins og það heyrði til algjörra undantekninga, að íslenskur stjórnmálamaður hafi sýnt á sér mannlegar hliðar. Hvaða skilaboð ber að lesa út úr þeim ummælum? Að mannlegar hliðar séu almennt ekkert aðalsmerki stjórnmálamanna landsins? Reyndar fer sú kenning alls ekki langt frá hinu sanna.
Að lokum fór forsætisráðherra gjörsamlega á kostum í Kastljósi í kvöld með því að segjast vera hreint dolfallin yfir sjónvarpsfréttum undanfarið um málefni húsnæðislántakenda. Það er sama hvað Jóhanna telur upp af meintum afrekum ríkisstjórnar sinnar, mörg þúsund fasteignir eru á leið á nauðungarsölu eftir 1. mars þó að fólki hafi verið gert kleift að lækka greiðslubyrði lána sinna um 17% á mánuði. Ég persónulega nenni ekki einu sinni að sækja um slíkt því það breytir nákvæmlega engu. Eins er það frábært að heyra þá möntru Samfylkingarinnar að hún barði það þó í gegn að landsmenn fengju að taka út viðbótarlífeyrissparnað sinn. Þetta er mikil náð og miskunn: Við fáum að taka út okkar eigin peninga! Manni vöknar bara um augu.
Eins ræddi Jóhanna um öll þau nýju störf sem munu skapast eftir X mörg ár þegar búið verður að byggja hinar og þessar virkjanir og álver. Samkvæmt tölum Hagstofunnar flyst nú ein fjölskylda á dag frá Íslandi. Verður einhver hér þegar öll þessi störf spretta upp? Og vilja allir vinna í álverum og virkjunum, eru það einu atvinnutækifærin?
Ég verð ekki hérna, það er ljóst.