Veiðitímabilið hafið

Jæja, þá er nauðungarsölufresturinn liðinn, 1. október er kominn og farinn, tímamarkið sem handónýt ríkisstjórn okkar Íslendinga  setti í vor þegar hún hélt að hún gæti bjargað öllu með því að fresta nauðungarsölum fram í október.

Glögg birtingarmynd þessa var þegar spikfeit ljóshærð kona frá sýslumanninum í Reykjavík bankaði hér upp á í miðjum kvöldverði í kvöld og spurði um mig. Ætlunin var að birta mér tilkynningu um að íbúðin mín væri á leið á nauðungarsölu en þar sem við frúin erum svo heppin að hafa bæði starfað hjá tollstjóranum í Reykjavík þekkjum við klækjabrögð þessara votta djöfulsins mæta vel.

Freigátan ljóshærða fékk einfaldlega þau svör að því miður byggjum við ekki hér og ofan í kaupið var stefnunni grýtt á eftir henni (og reyndar tók hún hana með sér að lokum). Ekki telst því hafa verið birt fyrir okkur. Æ, æ, sorry Rúnar, gengur bara betur næst.

Ég tel sérstaka ástæðu til að geta þess að stefnuvottar skirrast ekki við að birta fyrir börnum og óvitum. Nóg er að fá viðkomandi til að játa að hinn stefndi búi á staðnum og til þess eru allar klær settar út, börn blekkt og nágrannar grátbeðnir um að taka við bréfi fyrir ástkæran granna sinn. Fórnarlömb þessara hálfvita eru því hvött til þess að einfaldlega segjast vera einhverjir aðrir og henda þessum bjánum út.

Þá er einnig heimilt að birta fyrir stefnda hvar sem hann hittist fyrir og birta má fyrir yfirmanni á vinnustað og nánum samstarfsfélaga. Viðkomandi verður þó að kannast við hinn stefnda og bendi ég sérstaklega á XIII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 sem finna má hér (skrunið niður að kafla XIII).

atlisteinn.is hvetur alla sem fá stefnuvotta heim til sín til að fleygja þeim öfugum út og biðja þá aldrei þrífast og munið það að þessir drulluhalar fá greitt fyrir allar heimsóknir, hvort sem þær bera árangur eða ekki, og líka þótt þeir segist bara hafa farið á staðinn en sátu í raun heima. Við þekkjum bæði dæmi um það.

Berjumst!

Athugasemdir

athugasemdir