Veðurblíða og u-hljóðvarp

slbaVorið hefur haldið innreið sína hér á suðvesturströnd Noregs og varð sá merkisatburður í dag að fyrsta sólbað ársins fór fram á svölunum með kaffibollann á kantinum. Nú fer sá tími í hönd að við förum að sitja þar og í garðinum og verður þá fyrir það verkefni að ryðja garðinn sem er vægast sagt viðbjóður eftir veturinn. Til að mynda liggur skjólveggur, sem áður skildi að okkar garð og nágrannans, á grasflötinni hjá okkur eftir að hann fauk þangað í einhverjum norðangarra í nóvember og kassinn utan af varmadælunni liggur enn undir vegg, vatnsósa og fremur fráhrindandi útlits. Farið verður í þetta mál í hæfilega stórum skömmtum um helgar í marsmánuði. (MYND: Rósa nýtur vorsólarinnar. Á myndina vantar frá hægri mig en annað okkar varð að vera á vélinni.)

Að slíkum verkefnum og mörgum öðrum er hrein ömurð að ganga án þess að styrk hönd Bakkusar leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni, eins og Hallgrímur orðaði það í 44. Passíusálmi. Sú verður þó raunin þar sem heill mánuður er eftir af eyðimerkurgöngu minni en er þetta er ritað hef ég verið frábitinn nautn áfengra drykkja í tvo mánuði og nánast tækur í hvaða stúku sem er. Hörmung.

Það léttir þó lund mína verulega að í liðinni viku lágu í póstkassanum tvö tímarit og var þar um að ræða 32. og 33. árgang Íslensks máls og almennrar málfræði, málgagns Íslenska málfræðifélagsins en þeim félagsskap er mér hvort tveggja ljúft og skylt að tilheyra. Ástæðan fyrir því að bæði ritin berast mér nú, það er tölublöð áranna 2010 og 2011, er að hið fyrra lenti á miklum vergangi eftir að hafa verið sent á fyrsta íverustað okkar hér í Stavanger, Beverstien 8. Þaðan var það endursent og hafnaði að lokum aftur á Íslandi en er nú heimt úr helju, heilu ári síðar, þökk sé að mestu óeigingjarnri og gallharðri rannsóknarmennsku Margrétar Guðmundsdóttur, gjaldkera félagsins.

Bíður mín því ánægjulegt og upplýsandi lesefni á vorkvöldum, til að mynda grein Höskuldar Þráinssonar um u-hljóðvarp auk doktorsvarnar Ragnars Inga Aðalsteinssonar en ritgerðin, Tólf alda tryggð, fjallar um rannsóknir Ragnars á þróun stuðlasetningar frá elsta þekktum norrænum kveðskap fram til nútímans, nokkuð sem enginn sannur áhugamaður um fornan kveðskap getur látið ólesið.

Athugasemdir

athugasemdir