Utanborðsmótor á svín

lifrarpylsubitiÍ dag fékk ég loksins að upplifa þá sælu á ný að læsa tönnunum í íslenska flatköku með lifrarpylsu. Elli er nýkominn frá gamla landinu og tók netta innkaupaferð fyrir okkur. Flatkökur, lifrarpylsa, SS pylsur, parkódín forte og íslenskt brennivín. Þetta síðasta tvennt vekur ef til vill ugg hjá einhverjum en kemur til af tvennu: Hér er lífsins ómögulegt að kaupa sterkari lyf en C-vítamín út úr apóteki án þess að hafa lyfseðil í þríriti með innsigli Noregskonungs. Við reyndum að kaupa Treo í júní þegar konan fékk aðkenningu að hitavellu og var þeim umleitunum mætt með kaldhæðnislegu glotti í apótekinu. Reyndar er búið að úthluta okkur heimilislækni hérna en ég hreinlega nenni ekki að fara að útlista fyrir einhverjum Hans Christian eitthvað (sennilega Andersen) hve gott það sé nú að eiga verkjalyf á heimilinu. Þess vegna var sent eftir parkódíni til Íslands. (MYND: Enginn veit hvað átt hefur – flatkaka með lifrarpylsu. Glöggir lesendur kunna að sjá að skegg mitt er horfið á braut en það helgast af yfirgengilegum reglum norskra matvælaframleiðenda um skegghlífar sem gera það að verkum að ég lít út eins og múslimi dulbúinn sem strangtrúaður gyðingur og fólk dauðsmeykt við að ég muni sprengja mig í loft upp í þristinum sem ég tek til og frá vinnu. Það hef ég þó aldrei gert.)

Íslenska brennivínið er svo eingöngu til þess að hrella Norðmenn í innflutningsteitinni okkar 11. september næstkomandi. Þar verður boðið upp á staup af íslensku brennivíni ásamt lifrarpylsubita og í kjölfarið verður ælukeppni í garði nágrannanna. Þetta kann að hljóma uggvænlega en er þó hjóm eitt við hlið uppátækja norska tónlistar-, útvarps- og sjónvarpsmannsins Kristopher Schau sem leiðir þungarokksveitina The Cumshots. Árlega halda þeir félagar mikla tónleika þar sem stólpípukeppni áhorfenda er meðal fastra liða. Stórumdeilt skemmtiatriði á hátíðinni í fyrra var þegar hljómsveitin setti utanborðsmótor á svín og skellti því í næsta vatn. Ég veit ekki hvernig það fór.

Rokkhátíðin Rått & råde, sem verður árleg héðan í frá, er nú haldin í fyrsta sinn á Lassa stadion sem er hér stutt frá okkur. Fjarlægðin er ekki meiri en svo að við getum hlustað af svölunum. Það eru ekki minni menn en hinir innfæddu A-ha sem eru aðalnúmerið í kvöld en á morgun eiga Prodigy sviðið og sjálfur Ozzy rekur svo smiðshöggið á verkið á laugardaginn. Við ætlum að skella okkur á Prodigy á morgun og rifja upp hroðalega för á tónleika með þeim í Laugardalshöll 15. október 2004 þegar ég fór á tónleikana í inniskónum mínum. Þetta mun ég heiðra með því að fara í sömu inniskóm á tónleikana á morgun.

Athugasemdir

athugasemdir