Úr hel

helladirKolsvart metal-hjarta mitt tók þrjú aukaslög við að berja augum það fagnaðarerindi sem Fréttablaðið boðar í dag undir fyrirsögninniHellaðir í bílskúr í Garðabæ.Þarna er rætt við Frosta Runólfsson, einn hinna nafntoguðu og alræmdu Heiðarlundarbræðra sem auk Frosta telja þá Sigurð og Skapta Þór. Ég get alveg vottað að ekkert af því sem fram kemur í greininni er uppspuni en sjálfur varð ég gjarnan þess heiðurs aðnjótandi að gerast mjög hellaður með Sigga og Skapta á víxl (og stundum reyndar báðum í einu).
Drekkum af krafti!var jafnan slagorðið hjá Skapta, sem í dag ku vera virðulegur barnakennari á Dalvík (blessed be their souls!) og boðar að öllum líkindum þar fagnaðarerindi Slayer, Pantera og Deicide sem enginn væri gærdagurinn. Mér er minnisstætt þegar við félagar vorum einhvern tímann með hálfan Fjölbrautaskólann í Garðabæ í grenjandi gleði á heimili bræðranna í Heiðarlundinum (Mazdan G-8146 fyrir utan muni ég númerið rétt). Skapti stóð þá upp, mjög hellaður, rauf einhverja ömurð með New Kids on the Block eða álíka flatneskju sem verið var að þenja í lírukassanum, og öskraði eftirfarandi:
Afsakið, núna ætla ég að spila aðeins hérna tónlist sem örugglega bara ég og Atli fílum og þið hin verðið bara að fyrirgefa það á meðan!Að þessari stuttu tölu fluttri smeygði þessi síðhærði djöflamergur Dead by Dawn með Deicide yfir geislann og fagrir tónar umluktu viðstadda. Augnablikið var melódískt. Ég gæti rifjað upp ýmis fleiri helluð augnablik úr Heiðarlundinum ef ég myndi eitthvað eftir þeim en landi, suðurríkjarokk og sumarkvöld í Garðabænum fyrir 20 árum fara ótrúlega illa með gráu sellurnar.

Ekki má gleyma ógleymanlegri verslunarmanna-hell-gi í Þjórsárdalnum 1992. Þá mættu Skapti, Hemmi, Skipperinn svokallaði og fleiri góðir menn á húsbíl sem var eldri en sólin og rétt komust sjálfir inn í bílinn fyrir brennivínsbirgðum. Ég gleymi aldrei þeirri sjón sem blasti við þegar við komum að bílnum á sunnudagsmorgninum. Þetta var eins og að koma að mannskæðu bílslysi. Hemmi hékk hálfur út um gluggann við bílstjórasætið og þegar við opnuðum hliðardyrnar valt téður Skapti út og skall á grasflötinni. Afgangurinn af föruneytinu lá í einni áfengisdauðri kös innan um tugi tómra bjórdósa og Captain Morgan-flaskna.

Jú, það má segja að við Garðbæingar höfum verið í hellaðri kantinum í þá daga. Mitt eigið alzheimer-ástand gerði það því miður að verkum að ég gleymdi að banka upp á hjá Skapta þegar ég var staddur á Fiskideginum mikla á Dalvík í sumar, sjá þennan pistil, en það hefði ekki verið leiðinlegt að drekka af krafti við undirleik Cowboys from Hell – alveg eins og í gömlu góðu dagana.

Athugasemdir

athugasemdir