“Tíminn er eins og vatnið” orti Steinn Steinarr í víðfrægu ljóði sínu, Tímanum og vatninu, árið 1948 sem margir telja upphaf módernisma í íslenskri ljóðagerð. Hvort sem það er rétt að tími sé eins og vatn vilja að minnsta kosti flestir fylgjast með tímanum og vita hvað honum líður.
Þetta vita menn hjá Parmigiani í Sviss og þótt Audemars Piguet, Roger Dubuis og fleiri úrsmiðir kvarti yfir minnkuðum heimtum síðasta ársfjórðunginn segir Jean-Marc Jacot hjá Parmigiani engan bilbug vera á hans fólki að finna. Þvert á móti hafi salan þar á bæ aukist um 15 prósent frá áramótum. Jacot segist í samtali við Reuters ekki telja það líklegt að auðmenn heimsins breyti um lífstíl þótt skórinn kreppi víða í efnahagslífinu. Það komi auðvitað tímabil þar sem fólk sé hreinlega ekki í skapi til að kaupa hluti og það hafi einmitt verið það sem gerðist síðustu þrjá mánuði ársins 2008. Þetta sé allt spurning um skap en ekki skildingana.
Hvað sem segja má um það eru úrin frá Parmigiani ekki eitthvað sem selt er á næstu bensínstöð. Innan við 5.000 úr eru framleidd ár hvert og meðalverðið á úri frá Parmigiani er litlar 7,3 milljónir króna.