Upp upp mín sál

almenn myndLandið er að smárísa núna þegar líður á þessa viku sem á mánudaginn reis úr sæ líkt og ókleift bjarg. Það er farið að saxast á verkefnalistann. Fyrir fjórum tímum lagði ég 8. gup-gráðunina að baki og gekk bara nokkuð vel. Gataði reyndar á einni spurningu í ‘fræðilega’ hlutanum en þakka bara fyrir að ekki fór verr þar sem ég var verr lesinn en nokkurn tímann í framhaldsskóla og er þá langt til jafnað. Með þessari gráðun dettur sumarládeyðan á, ein æfing í viku, sameiginleg fyrir allar gráður og engin gráðun aftur fyrr en rétt fyrir jól.

Ég náði að togna í vinstri bicep femoris (hamstrings þekkja einhverjir betur) á æfingunni á mánudag sem gerði mér lífið leitt í gráðun dagsins. Ég gaf dauðann og djöfulinn í það eftir harða upphitun og sýp seyðið núna þegar ég er orðinn kaldur aftur, draghaltur og allur lurkum laminn. En þjáningin er fæðingarhríð skilningsins, orti Gíbran, og þetta hafðist hvað sem öðru líður.

Endalaus vinna fór í að semja fyrirlesturinn fyrir morgundaginn og meðfylgjandi glærupakka. Sennilega er þetta minn lengsti samfelldi texti á norsku, átta blaðsíður. Nú ætti ég að vera að æfa mig í rennslinu og læra utan að en ég bara nenni því ekki. Ætla að láta nokkra yfirlestra í fyrramálið duga. Ég er löngu kominn í sumarfrí í huganum og alla leið á eftirlaun í draumum mínum.

Talandi um drauma þá er ég hreinlega að hugsa um að fara að sofa. Ég fæ meira að segja að sofa til 10 í fyrramálið þar sem ég er á kvöldvakt. Ég óska Íslendingum góðrar skemmtunar á Eagles í Laugardalshöllinni á morgun. Megi tónleikarnir verða þeim góð upphitun fyrir sunnudaginn hér! 🙂

Athugasemdir

athugasemdir