‘Það er auðvitað þannig að við ráðum ekki við allt í lífinu,’ sagði Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra í viðtali við sjónvarpsrás mbl.is í dag. Ég hef nú ekki séð að hæstvirtur ráðherra ráði við nokkurn skapaðan hlut. Gamli bankaráðsmaðurinn úr Kaupþingi rýkur upp til handa og fóta með reglulegu millibili til að minna á sig (tillagan um afskriftir erlendra bílalána í vor og fleira) en þess á milli gleymir maður honum hálfpartinn.
Runólfsmálið er eiginlega bráðfyndið, að minnsta kosti fyrir flesta aðra en Runólf og Árna Pál. Umboðsmaður skuldara má sem sagt ekki vera skuldari. Má umboðsmaður neytenda þá ekki vera neytandi? Ég hef séð Gísla Tryggvason í Bónus, hann er neytandi eins og ég og þú og við báðir. Hins vegar má umboðsmaður Alþingis ekki vera alþingismaður og maður spyr sig hvort umboðsmaður barna geti verið barn. En umboðsmaður skuldara hlyti alltaf að vera hæfari embættismaður ef hann skuldaði. Er það ekki?