Þurrkaður fiskur og fornar sögur

mnHér er mokað vel upp úr kössum þessa dagana og koma margir dýrgripir í ljós. Það besta við bókasöfn er ef til vill þegar maður er að flytja þau, freistast til að tylla sér í smástund með gamla skruddu og dettur svo gjörsamlega inn í ævafornan heim minninga og gamallar speki. Hver man ekki eftir alfræðisafni AB í að minnsta kosti 24 bindum sem Örnólfur Thorlacius, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, þýddi á slíka gullaldaríslensku að ég tek andköf? Þetta er geysimikið verk og mikið lagt í það. Hvergi er að finna þýðingarbrag á orðfæri, myndatextar eru eins og upp úr Njálu, best er skrifað bezt og kommur eru á undan öllum aukasetningum eins og var til 1974. Ég held að Íslendingar hafi tapað niður slíku nostri við þýðingar, síðustu 10 ár hef ég oft og mörgum sinnum gefist upp á að lesa þýdd skáldverk vegna þess hve þýðingin er hroðvirknisleg. Orðaröð og orðatiltækjum er stolið úr frumtextanum, verri þýðingar finnast ekki. Grunnregla við þýðingar er að spyrja fyrst: Hvernig myndi ég orða þessa setningu á eðlilegri íslensku? Þeirri reglu hafa margir gleymt.
kennsluskra
Meðal þess sem ég fiskaði upp úr kassa í kvöld er kennsluskrá Háskóla Íslands veturinn 1977 – 1978. Hvílíkur dýrgripur. Bókin er næfurþunn og þarna ræður gamla deildaskiptingin ríkjum. Guðfræðideild er númer 01 og á eftir fylgja læknadeild, lagadeild, viðskiptadeild og tannlæknadeild. Muna jafnaldrar mínir þessa daga? ‘Símanúmer háskólans er 25088 og símastúlka er Helga Sigurðardóttir.’

Árið 1977 hafa nemendur HÍ varla verið meira en 3.500. Ég hóf nám við stofnunina árið 1993 og hef útskrifast þaðan þrisvar sinnum síðan. Síðasta vetur voru nemendur um 15.000 og verið var að vísa umsækjendum frá deildum sem hafa aldrei verið tískudeildir. Háskóli Íslands ársins 2010 er hroðalegt vígi eftirlitsmyndavéla, bílastæða, rafdrifinna hurða, ódrekkandi kaffis og styggra kvenna sem spyrja mann hvað maður sé eiginlega að gera hérna og af hverju maður sendi ekki bara tölvupóst og millifæri skráningargjaldið gegnum heimabankann!
stofa1
Ég gat ekki svarað síðustu spurningunni. Þegar ég var barn í HÍ var svokölluð Nemendaskrá starfrækt á fyrstu hæð aðalbyggingarinnar. Helsta einkenni Nemendaskrár voru geðgóðar miðaldra konur sem hjálpuðu stúdentum við að fylla skriflega út námskeiðsskráningareyðublöð. Númer námskeiða voru sex tölustafir, aðskildir með punktum, og mátti fletta númerunum upp í kennsluskrá sem í þá daga var bók…nú er hún netsíða. Gíróseðill kom vegna skráningargjalds og mátti semja um að greiða hann í ágúst í stað júní. Þetta var ekkert mál. Nú er þetta mál, stórmál. (MYND: Stofan eins og hún lítur út í dag. Talandi dæmi um það að Róm var ekki byggð á einum degi. Þetta verður klárt í næstu viku. Allar leiðir liggja heldur ekki til Rómar, þær liggja frá Róm, menn voru bara að fara í vitlausa átt.)

Veturinn 1993 – 1994 mátti líka fara út að reykja í prófum. Þá veifaði maður bara til eldfornra kvenna sem sátu yfir í prófum og pantaði reykpásu. Skynsamt fólk gerði þetta yfirleitt eftir að hafa svarað helmingi spurninga. Reykumsækjendum var svo raðað niður og fór einn út í einu í fylgd yfirsetukonu. Kæmu reykjendur úr prófi í sama fagi gætti vakthafandi yfirsetukona þess að þeir töluðu ekki saman á meðan friðsæl vin nikótínsins líknaði þeim. Þetta kerfi var lagt af síðla árs 1994 sem stuðlaði að laumureykingum í klósettpásum í aðalbyggingu en þar voru einu klósett skólans sem lokuðust frá gólfi til lofts og fyrirbyggðu þannig reykmengun. Auk mín nýttu sér nokkrir alþingismenn ársins 2010 þennan lúxus, ég nefni hvorki nöfn né flokka. Gott var að luma á Ópali.

Árið 1977 kenndi Jón Óttar Ragnarsson dósent námskeiðið 06.31.14 Efnagreining Ib. Síðar stofnaði sá góði maður Stöð 2 og reisti Herbalife-veldi Íslands. Varadeildarforseti félagsvísindadeildar var hins vegar prófessor Ólafur Ragnar Grímsson og Þórólfur Þórlindsson var gistilektor við sömu deild. Svaf hann þá í Odda?

Athugasemdir

athugasemdir