Kastljós á föstudaginn fyrir viku var óborganlegt. Þar fóru Eiríkur Jónsson, fyrrum ritstjóri Séðs og heyrðs, og Gísli Einarsson, fréttamaður RÚV, gjörsamlega á kostum undir stjórn Helga Seljan. Ég gæti skrifað hérna fjóra pistla um þennan þátt en læt mér nægja að tilfæra bestu ummæli Eiríks í þættinum: ‘Þú kaupir þér ekki Kit Kat ef þú ert blankur í Bónus’.
Full ástæða er til að geta hér tölvunarfræðings sem búsettur er í Björgvin og heldur úti þessu ágæta bloggi. Maðurinn heitir Örn Markússon og bregður pennanum vel. Hann segir meðal annars frá spéhræðslu Norðmanna sem almennt þori ekki í sturtu í ræktinni heldur fari heim í öllum skrúðanum og bregði sér undir bununa þar. Þetta er gjörsamlega rétt hjá Erni, ég er nánast alltaf einn í sturtu í ræktinni hér og þá sjaldan við erum tveir (höfum aldrei verið fleiri en það í einu hjá SATS) heldur hinn aðilinn sig alltaf kirfilega á bak við skilrúmið sem aðskilur sturturnar og þurrkar sér líka þar – nokkuð sem ég hef aldrei orðið vitni að annars staðar á byggðu bóli.
Ég tek fullkomlega undir titilinn á bloggi Arnar, loksins föstudagur…reyndar er fimmtudagskvöld þegar þetta er ritað en flestir munu lesa pistilinn á föstudegi svo ég læt mér í léttu rúmi liggja. Á tæpum 13 klukkustundum var lífið murkað úr 2.055 lömbum og 997 svínum í vinnunni í dag. Ég var löngu hættur að finna fyrir stórum hlutum af mér og get illa rétt úr fingrum vinstri handar eftir að hafa kreist gikk loftklippunnar góðu 2.055 sinnum. Sem betur fer eru svínin ekki á minni könnu. En það verður að segjast að þetta er stemmning, þessi keyrsla. Sennilega eitthvað sem fólk upplifði á planinu góða á Siglufirði við síldarsöltun á sínum tíma. Þeir sem vinna yfirvinnu fá frítt að borða þann daginn en Nortura má eiga það að þeir bjóða upp á mötuneyti á pari við Hótel Holt. Svo kemur maður hálfdauður en sæll út að kvöldi og skríður á æfingu án þess að langa til þess. Þaðan kemur maður svo tvíefldur og hress út eftir að hafa horft á dularfullar þurrkaðfarir hinna innfæddu.
En sú náð að fá að sofa út tvisvar í röð um helgina og sitja með rauðvínsglas við snarkandi arineld þess á milli. Reyndar ætlum við í Ikea að kaupa skrifstofustól en þá verð ég að minnsta kosti útsofinn.