Tryggvi Gunnlaugsson – in memoriam

tryggvi skturÉg rak ekki augun í það fyrr en í dag að ein skærasta perlan í hópi íslenskra útigangsmanna, Tryggvi Gunnlaugsson, hefði yfirgefið þennan heim 27. september. Sem dyggur þátttakandi í íslensku næturlífi árin 1988 – 2010, hvort tveggja sem dyravörður og óbreytt sukkvél, komst ég auðvitað ekki hjá því að kynnast Tryggva og eiga við hann ýmsar litríkar samræður á götum borgarinnar. (MYND: Tryggvi. /Vísir.is, vonandi eign 365.)

Menn tala um Rob Halford í Judas Priest sem manninn með leðurlungun en Tryggvi heitinn var þá klárlega maðurinn með gúmmíandlitið því sá teygjanleiki sem fésið á þessum einstaklingi bjó yfir var slíkur að stundum hélt ég að hann hefði verið með munnhörpuna góðu uppi í sér þegar hún birtist skyndilega óforvarandis á vörum hans er tóku að töfra fram hryllileg óhljóð með aðstoð hljóðfærisins.

Tryggvi var yndislegur húmoristi og ferðaðist jafnan um á reiðhjólum sem voru í jafn-misjöfnu ástandi og hann og ef vel áraði voru vasarnir á gatslitnum klæðunum fullir af litlum flöskum með rauðspritti og kardimommudropum. Einnig gaukuðu gestir öldurhúsa að honum lítilræði af og til. Snemma sumars 1995, þegar ég starfaði sem dyravörður á Gauki á Stöng um helgar, kom Tryggvi hjólandi til mín á fallegu sunnudagskvöldi og ljómaði eins og sólin en almennt gat verið misviðrasamt þar sem skapsmunir hans voru.

Ég heilsaði karlinum að vanda og spurði tíðinda. Jú jú, ekki vantaði þau, sá gamli hafði þá munað eftir því að hann var að verða fimmtugur, sem gæti svo sem vel hafa passað, en vandamálið var að hann mundi ekki klárlega hvaða dag stórafmælið var. Hann hefði því ákveðið að réttast væri að halda upp á fimmtugsafmælið allt sumarið svo hann missti örugglega ekki af því. “Og nú skaltu heyra lagsmaður!” hrópaði hann svo um leið og munnharpan birtist eins og hendi væri veifað á túlanum. Tónleikarnir sem fylgdu í kjölfarið hefðu sennilega seint komið honum á Listahátíð í Reykjavík en óbeisluð gleði hans braust þarna fram með tónaflóðinu og líklega helgaði tilgangurinn meðalið.

Öðru sinni stóð ég í dyrum Club 7 við Ingólfsstræti í september 1999 þegar Tryggva bar að garði hjólandi og hafði hann einhvers staðar komið höndum yfir nýlegar Adidas-buxur sem pössuðu eins illa og nokkur flík gat passað við þetta hrjúfgerða barn götunnar og næturinnar. “Á ég að hjálpa þér með þetta?” spurði Tryggvi hvasst og benti kræklóttum fingri á kókglas sem ég hélt á, greinilega hart í ári hjá karlinum. Ég útskýrði að þetta væri nú bara Kóka Kóla eitt og sér og hætt við að stoðkerfið í honum hryndi endanlega ef hann fengi skyndilega svo lítið eitraðan vökva inn fyrir sínar varir. Við þetta geiflaði karlinn sig hrikalega og hélt ég á tímabili að hann ætlaði að svipta neðri vörinni yfir allan hausinn. Fljótlega tók hann þó gleði sína þegar vegfarandi sem var um það bil að setjast inn í leigubíl rétti honum hálft plastglas af bjór og bað hann vel að lifa.

Ég hugsa að ég hafi síðast rekist á Tryggva í Austurstræti árið 2008 eða ´09. Þá var hann að mestu horfinn af götunni, hafði farið í meðferð nokkrum árum áður og verið alveg eða að mestu edrú síðan. Ég spurði hann hvernig hann hefði það og fékk þetta eftirminnilega svar: “O jú jú fjandinn hafi það, maður er svo sem á lífi, búinn að vera sjö ár í Jesúbransanum!”

Blessuð sé minning þessarar heilögu þrenningar Reykjavíkur, Tryggva, munnhörpunnar og reiðhjólsins.

Athugasemdir

athugasemdir