Ég sá á Kraftaheimum í gær frásögn um að Björgúlfur Stefánsson, kraftlyftingamaður úr Vestmannaeyjum og gamall dyrajaxl af Gauki á Stöng, væri tekinn að munda bekkpressustöngina á ný. Ég kynntist Björgúlfi þegar hann var sturtuvörður í Ásgarði í Garðabæ stutt tímabil á barnaskólaárum mínum. Gat ég ekki stillt mig um að skrifa stutta hugvekju um úlfinn í athugasemd þar á síðunni sem Kári Kraftaheimaritstjóri vildi svo fá að birta sem sjálfstæðan pistil og gerði það. Heiðurinn er minn. Ég birti söguna að gamni hérna líka og tileinka hana Björgúlfi Stefánssyni en auk þess bekkjarbræðrum mínum og -systrum úr Flataskóla árin 1981 – ’85. Sennilega muna þeir fyrrnefndu betur eftir Björgúlfi.
Svona spratt þetta fram:
Þar fer mikill víkingur, Björgúlfur Stefánsson, og gaman að vita af honum undir stönginni á ný. Björgúlfur varð snemma annálaður í Garðabænum þar sem hann starfaði sem baðvörður yfir undirrituðum í íþróttasetrinu Ásgarði um það bil árið 1983 eða svo. Varð þar sennilega til hans fyrsta viðurnefni sem var ‘Paddington’ í höfuðið á samnefndri teiknimyndafígúru höfundarins Michael Bond en vöxtur og atgervi þótti keimlíkt.
Ekki var hæð Björgúlfs ýkjamikil en breiddin þeim mun tilkomumeiri og vakti hann þegar nokkurn ugg í barnungum hjörtum nemenda Flataskóla sem áttu það til að vera með ærsl ýmiss konar og djöfulskap í Ásgarði. Fljótlega kvisaðist það þó að þarna færi barngóður jálkur úr Eyjum en sumir sögðu Björgúlf hálftröll sem flutt hefði verið upp á land í kjölfar eldgossins 1973 af ótta við að Heimaey sykki undan gríðarmiklum þunga hans eftir jarðhræringarnar.
Paddington var ungur að árum á þessum tíma en mikill aflmaður og talinn hamrammur að hætti fornmanna ýmissa. Kom gríðarlegt afl hans meðal annars fram þegar allt karlkyn bekkjarins, sennilega um 14 manns, gerði súg að baðverðinum og hugðist loka hann inni í eigin sturtuklefa. Lagðist hersingin á hurðina og spyrnti við 28 fótum sem fæstir höfðu á þeim tíma fengið að kynnast hnébeygju eða annarri hollri mennt berserkja. Upphófst við þetta mikill gnýr og atgangur.
Óhætt er að segja að skelfingin hafi skinið fölskvalaust úr ungum andlitum þegar hurðin seig til baka þumlung fyrir þumlung og ýtti öllu hlassinu miskunnarlaust eftir gólfinu inn í flísalagðan búningsklefann. Að hurðarbaki birtist sú sjón er stendur mörgum nemandanum úr 3. bekk GG við Flataskóla enn þann dag í dag ljóslifandi fyrir hugskotssjónum í verstu martröðum: Dökkrauð og þrútin ásjónan efst á stuttum búk Paddingtons með hrikalegan bætingaglampa í augum.
Er Vestmannaeyjatröllið hafði knúið fram sigur með ógurlegu atgervi sínu var vatnsslangan gjarnan gripin og ógæfusamur herinn hrakinn æpandi og nakinn á flótta undan kaldri bunu og háðslegum köguryrðum Paddingtons.
Allt var þetta þó í mesta bróðerni og 12 árum seinna störfuðum við saman sem dyraverðir á Gauki á Stöng í þá tíð er hinn hroðalegi Vestfirðingur Jón Benóný Reynisson réð þar fyrir ríki ok lýkr þar frásögn þessari. Guð sé mér gramr ef ek lýg, hollr ef ek satt segi.