Trúin flytur fjöll…

flutningar…við flytjum allt annað, að minnsta kosti búslóðina okkar eins og hún leggur sig. Nú er stutt í Klepp og djöfullegur laugardagur í flutningum fram undan. Eins stendur hér yfir matarhátíðin Gladmat og ætlast er til þess að við mætum í vinnu á morgun. Lesendur mega búast við umfjöllun um Gladmat og almenn leiðindi flutninga hér á síðunni á morgun, föstudag 30. júlí, en eftir það verður tekið örstutt hlé á pistlum þar til við fáum nettenginguna frá Lyse í nýju íbúðina. Það verður samt bara stutt… (MYND: Flutningar frá Leirutanganum í maí, þessir dagar voru á pari við verstu gyllinæð…samt aðeins verri.)

Þegar þetta er ritað erum við að verða búin að dauðhreinsa íbúðina uppi í Forus sem við erum að flytja úr. Elli hinn eldri birtist hér eins og frelsandi engill í gær og skipti um hnappinn sem sturtar niður í salerninu en á hann hrasaði ég ölvaður um daginn og hnappurinn ásamt umgjörð hurfu inn í vegginn og þurftum við þar af leiðandi að stinga okkur upp að olnboga inn í vegg til að sturta niður dögum saman. Ákveðið var að þegja um þetta við leigusalana til að fá trygginguna til baka og tókst það.

Núna er ég hvort tveggja að sofna og hlusta á Bubba kyrja um fjöllin sem hafa vakað í þúsund ár með Egó. Væntanlegir eru ítarlegir pistlar um flutninga ásamt myndum sem engum munu hlífa.

Athugasemdir

athugasemdir