Troða halir helveg en himinn klofnar

kampsportVið hjónin stóðum við áætlanir okkar og yfirlýsingar frá því í vor og mættum á fyrstu æfingu byrjendanámskeiðs í kickboxi hjá Stavanger Kampsportinstitutt í Gausel klukkan 18:00 í dag.

Eins og ég hefði getað sagt mér sjálfur var það ekkert annað en helvíti á jörðu að finna smjörþefinn af slíkri hreyfingu eftir rækilegt hlé frá karateþjálfun og áhyggjulaust líf á líkamsræktarstöðvum um árabil. Ekki dró það úr þjáningunum að þjálfarinn okkar (hér eftir) á mánudögum, I…, meinhæðinn sadistahundur gæddur hæfilegum skammti af stórmennskubrjálæði, var ekkert að hlífa grátandi pupulnum við háði, spotti og nístandi sársauka. Þessi pistill er ritaður með pinna sem ég held á í munninum.

Væri I… ekki sáttur við frammistöðu einhvers þeirra 25 einstaklinga sem á æfingunni voru taldi hann bara sömu töluna aftur og aftur, ellefu, ellefu, ellefu, ellefu af fimmtán heildarendurtekningum tiltekinnar æfingar þar til viðkomandi tók sig á, nær dauða en lífi og hataður af þjáningarsystkinum sínum (gamalt Þórshamarsfólk minnist eflaust svipaðra og einkar áhrifaríkra takta hjá sensei Ken Hassel þegar hann var upp á sitt besta (versta) upp úr aldamótum).

Annars var þetta mjög gaman, fyrir utan að ég gat ekki klætt mig sjálfur eftir æfinguna, og við skellum okkur hiklaust á aðild með eins árs binditíma og keyptum okkur kickbox-buxur frá K-1 til að innsigla örlög okkar. Fátt er betra en djöfulleg liðleika- og úthaldsþjálfun samhliða lóðapuði, það er að minnsta kosti mín reynsla. Nú kemur í ljós hvort aginn nægi til að mæta í þessar aftökubúðir þrisvar í viku…og borga fyrir það!

Eitt er klárt og það er að ég verð ekki upp á fleiri en fimm fiska og fimm brauð á lappaæfingu í City Gym kl. 06:00 í fyrramálið. Þess vegna ætla ég að henda mér í bælið ekki seinna en núna og biðja til almættisins að ég geti staðið uppréttur er dagur rennur.

Athugasemdir

athugasemdir