Þrjú ár frá strandhöggi

rj rÞetta er tímamótadagur, 11. maí. Í dag eru liðin þrjú ár síðan við lentum hér á flugvellinum í Stavanger (sem þó er í Sola) með rækilega yfirvigt af farangri, 40 feta gám af búslóð á leið yfir hafið og vonir og þrár um gæfuríka framtíð í nýju landi. (MYND: Í miðbæ Stavanger 11. maí 2010. Á barnum þarna á horninu, Dickens, var flutningsskálin svokallaða drukkin, fyrsta glasið í Noregi.)

Þegar litið er til baka yfir þessi þrjú ár hefur þetta brölt allt saman reyndar bara gengið býsna vel, eiginlega vonum framar. Með mikilli elju tókst okkur að troða okkur báðum í vinnu með tölvupóstinn einan að vopni en það kostaði tæplega 200 atvinnuumsóknir og býsna mörg søknadsbrev sem á tímabilinu nóvember 2009 fram í mars 2010 þróuðust frá mjög dönskuskotinni norsku yfir í bara alveg sæmilega norsku en mikið hjálpaði að sitja námskeiðin Norska I og II hjá Mími þarna á vordögum. Leikar fóru að lokum svo að okkur tókst að sannfæra stjórnendur á Háskólasjúkrahúsinu í Stavanger um að sniðugt væri að ráða okkur í sumarvinnu við ræstingar og þar vannst fyrsti sigurinn í því stríðinu.

Á sama hátt ákváðu ung hjón í Forus, skrifstofu- og verslunarhverfi sem liggur sameiginlega í Stavanger, Sandnes og Sola, að óhætt hlyti að vera að leigja hrunflóttamönnum frá Íslandi litla kjallaraíbúð svona til að byrja með og þar til eitthvað endanlegra fyndist.rj rii (MYND: Fyrsta heimili okkar í Noregi, Beverstien 8 í Forus. Mér varð hugsað til niðurlagsins í kvæði Jóns Helgasonar, Í vorþeynum, er ég sofnaði þarna drukkinn fyrsta kvöldið, “…drýpur af hússins upsum erlent regn,/ókunnir vindar kveina þar við dyr.”)

Þarna var komin vinna og húsnæði í Stavanger eftir sex mánaða puð samhliða skrifum á MA-ritgerð og norskunámskeiði á þriðjudögum en enn þá vorum við ekki farin að segja orð á norsku við neinn nema á námskeiðinu góða hjá Mími þar sem kennd var silkimjúk og ómþýð bókmálsnorska að hætti Óslóarbúa.

Fyrsta virkilega áfallið í verkefninu öllu var svo að heyra mælt mál hins dæmigerða íbúa Stavanger og nágrennis sem reyndist eiga frekar lítið sameiginlegt með østlandsk-mállýskunni okkar góðu sem Mímir bjó okkur í veganesti af spaklegu viti sínu. Þegar við stóðum frammi fyrir þreytulegri miðaldra afgreiðslukonu á fyrstu hæð skattstofunnar í Stavanger og lögðum fram einfalda og afdráttarlausa beiðni um skattkort auk kennitölu og lögheimilis í landinu án frekari tafa, skildi ég hreinlega ekki orð af því sem manneskjan svaraði mér með miklum skroll-errum og ýmsum orðum sem eingöngu þekkjast og skiljast hérna á vesturströndinni.

Ég hefði dregið þá ályktun að ég hefði fyrir mistök hafnað í allt öðru landi en Noregi ef leiðbeiningaskilti og eyðublöð á hefðbundinni og auðskilinni norsku, öllu tvískipt í bókmál og nýnorsku, hefðu ekki blasað við á veggjum og borðum í kring. Fulltrúinn þreytulegi áttaði sig á því menningaráfalli sem mæli hennar olli og talaði örlítið hægar. Rann þá upp fyrir mér að hérna á Jæren (sem Snorri kallar Jaðarr í Heimskringlu) nota íbúarnir sín eigin persónufornöfn sem svipar ekkert til þeirra sem þekkt eru úr hefðbundnu bókmáli.

Þessir fimmta stigs close encounters mínir við Stavanger-búa (m.v. þrepaskala J. Allen Hynek, “…joint, bilateral contact events produced through the conscious, voluntary and proactive human-initiated or cooperative communication with extraterrestrial intelligence.”) tókust þó að minnsta kosti að svo miklu leyti að ellefu dögum síðar færði pósturinn okkur formlegt bréf skattyfirvalda þar sem við vorum boðin velkomin með norskum kennitölum og lögheimili í landinu. Á örfáum dögum hafði ég þar með leikið þann ískyggilega leik útrásarvíkinga og hrunforkólfa að skipta um kennitölu og færa lögheimili mitt til útlanda.rj riii (MYND: Fyrsta Íslendingapartýið, laugardaginn 15. maí, rækjur og brennivín hjá feðgunum Ella í Klepp (ekki spítalanum).)

Það er mjög skemmtilegt að rifja þessar fyrstu vikur í Noregi upp núna, þremur árum síðar, þótt upphafsskrefin hér hafi einkennst af tiltölulega miklu veseni og ýmsum þreytandi mistökum sem fólust meðal annars í því að ferðast hálfa leið til helvítis eftir að hafa villst upp í rangan strætisvagn, vera með gemsana hjá allt of dýru símafyrirtæki og læra þá mjög dýrkeyptu lexíu að Vinmonopolet er lokað laugardaginn um hvítasunnuhelgar (og páska líka).sus 2010 (MYND: Fyrsti vinnustaðurinn í Noregi, Háskólasjúkrahúsið í Stavanger. Hryllingur að halda þessari múnderingu hreinni!)

Noregsdvölin hefur verið ansi lærdómsrík og ekki örgrannt um að maður hafi við þessa flutninga reynt ýmislegt sem ég átti ekki von á að taka mér fyrir hendur um ævina. Ég hef til dæmis haft atvinnu af ræstingum, unnið á sláturvertíð ataður blóði ógæfusamra dýra, verið yfirmaður í heilbrigðiskerfinu með 16 undirmenn og aðstoðarmann (sem reyndar fór í níu mánaða veikindafrí viku eftir að ég byrjaði), svívirt helming undirmanna minna, sem voru múslimar, með því að bjóða upp á rúnnstykki með skinku og osti á morgunverðarfundi, setið 75 klukkustunda námskeið til að fá að starfa sem dyravörður í aukavinnu þrátt fyrir átta ára reynslu af því starfi frá Íslandi, tekið lyftarapróf og haug af alls kyns námskeiðum tengdum olíuiðnaði landsins, lagt mér elg til munns og kosið í sveitarstjórnarkosningum í Stavanger.

Maður verður eiginlega að skála fyrir þessu.

Athugasemdir

athugasemdir