Jæja, þá er maður kominn upp í núllið. Maður sem fyrir örfáum vikum var ekkert nema spik, bein og augu hefur öðlast tilveru á nýjan leik. Í hádeginu í dag lýsti sá sólargeisli upp líf mitt að vigtin í World Class Spöng sýndi 100,0 kg þar sem ég íþyngdi henni, klæddur sundskýlu einni, eftir hörð átök við stálið. Þetta er þyngdaraukning upp á 5,3 kílógrömm frá áramótum sem ég þakka auðvitað járnaga, þurrki og sex æfingum í viku en þó ekki síður kreatíninu Nitrobolon II frá Trec Nutrition.
Þetta er þægilegasta kreatín, veldur ekki ofsakláða eins og Horse Power frá Ultimate Nutrition sem ég fjallaði um í pistli hér fyrir réttu ári. Reyndar var ég farinn að venjast Horse Power-kláðanum og hálfsakna hans nú þegar nýtt efni hefur verið tekið í notkun en Nitrobolonið er ekkert síðra.
Þá fæ ég ekki pípandi steinsmugu af því en eins og ég nefndi í framangreindum pistli hefur sumt kreatín svo laxerandi áhrif á mig að ég rétt næ á postulínið eftir að hafa þambað blönduna. Má þar til dæmis nefna Phosphagen frá EAS sem kallaði þegar fram miklar búksorgir en hafði nær enga aðra virkni í för með sér (á mig það er að segja – nú er það mjög einstaklingsbundið hvaða áhrif mismunandi tegundir kreatíns hafa á fólk eins og þeir vita sem til þekkja).
Nitrobolon II lætur samt alveg vita af sér. Ráðlögð notkun er 20 grömm hálftíma fyrir æfingu og 10 grömm eftir æfinguna og einn 10 gramma skammtur á hvíldardögum. Ég finn hvernig fer að örla á geðveikinni svona um það leyti sem ég er að detta inn í Classann og eftir 25 mínútur á skíðavélinni til að koma blóðinu aðeins á hreyfingu er ég reiðubúinn að undirgangast hina sönnu nautn þjáningarinnar…Pantera, System of a Down og Cannibal Corpse á góðum styrk í tónhlöðunni auðvitað verulegt hæfisskilyrði.
Ef ég á að gefa Nitrobolon II, sem fæst hjá honum Ægi vini mínum í Vaxtarvörum í Hafnarfirði, raunhæfa einkunn myndi ég setja það á stall með kreatíni á borð við gamla góða Creatine Fuel frá Twinlab og Cell-Tech frá Muscletech sem á sínum tíma fékk rólyndustu húsmæður úr Vesturbænum til að mælast á richter í bekkpressunni.
Þetta er sem sagt djöfulskapur í tiltölulega hreinni mynd og ávísun á fínar bætingar í salnum. Auðvitað þarf að vinna heimavinnuna, éta þokkalega með þessu og æfa af ástríðu.
Hinn rammi safi rennur frjáls í gegn
um rót er stóð í sinni moldu kyr [sic]
en öðrum finnst sig vanta vaxtarmegn
þótt vorið fljúgi í lofti hraðan byr.
Var Jón Helgason að yrkja um kreatín í sínu magnaða kvæði Í vorþeynum?