Þriðjudagur til þrautar

tkd-brotÞað er klárt að þriðjudagurinn verður þyngsta þraut vikunnar eftir að við byrjuðum að æfa taekwondo. Þann dag tökum við á lóðum strax eftir vinnu og eftir það er tiltölulega stutt hlé fram að TKD sem nýtist í mjög létta máltíð, próteinhristing og kreatíninntöku. Við þetta bæti ég Pure Carbo Power, hreinu maltódextrínkolvetni frá Nordic Power, sem skilar manni lokametrana á seinni æfingunni. Þegar maður sest í sófann með hundraðasta kaffibollann eftir svona dag er ekki laust við að manni finnist þrautir Perseifs hafa verið hálfgert húmbúkk. (MYND: Heimaverkefnið fyrir næstu æfingu.)

Nýjasta markmiðið hér á heimilinu er að fara með stórsigur af hólmi í vinnustaðalíkamsræktarátakinu Aktiv Bedrift sem Bedriftsidrettforbundet, eða Vinnustaðaíþróttasambandið, stendur fyrir næstu vikurnar. Þetta virkar þannig að maður fær aðgangsorð að eigin svæði á síðunni og skráir þar samviskusamlega hvað maður hreyfir sig mikið eða lengi á dag. Fjöldi mínútna, hlaupnir og gengnir kílómetrar og svo framvegis gefur svo og svo mörg stig sem að lokum leggjast saman. Það þarf svo sem engin ólympíustirni til að taka þetta í nefið, löglegt er að skrá ryksugun á heimilinu svo lengi sem hún varir minnst fimmtán mínútur samfleytt. Þá fæst eitt stig. Þess má geta að hinn dæmigerði Norðmaður lítur á hálftíma göngutúr sem hrikaleg átök. Við stefnum á að rústa þessu með lyftingum og taekwondo átta sinnum í viku og höfum þegar hafið skráningar á síðunni.

Nýja starfið mitt er að taka á sig martraðarkennda mynd hægt og bítandi. Á föstudag kom það eins og þruma úr heiðskíru að aðstoðarmanneskjan mín er búin að ganga alveg frá olnboganum á sér eftir 30 ára starf á spítalanum. Hún er því komin í veikindafrí um óákveðinn tíma og gæti orðið fórnarlamb svokallaðs omskolering en þá skiptir viðkomandi algjörlega um starfsgrein að læknisráði. Ég sit því sveittur fyrir framan fullt af starfsmannahaldstölvukerfum sem hún þekkir eins og handarbakið á sér og þarf auk þess að mæta á alls konar nýja fundi sem hún sá alltaf um að sækja fyrir hönd okkar sviðs. Þá þarf ég að raða niður sumarfríum allra minna starfsmanna fyrir 31. janúar og strax eru allir vælandi yfir þeim vikum sem þeim hefur verið úthlutað. Er ekki hægt að taka upp eitt lögákveðið ríkissumarfrí, til dæmis allan júlí, og spítalar og aðrar stofnanir loka bara á meðan? Sem sagt alls konar flókið puð fram undan og varla sekúnda í afslöppun fyrr en í páskafríinu í lok apríl. Mikið vona ég að föstudagurinn langi verði sérstaklega langur í ár.

Ég lofaði því fyrir viku að skrifa um sjödagaáhrif kreatínsins Dominator Strong Matrix 7 frá Olimp sem er í sölu hérna hjá Nordic Power. Þau lofa bara nokkuð góðu, ég man ekki eftir annarri eins virkni í öðrum tegundum kreatíns nema gamla Creatine Fuel frá Twinlab og að sjálfsögðu Horsepower frá Ultimate Nutrition sem ég skrifaði ítarlega um hérna fyrir ári. Áhrif þess síðarnefnda voru slík að ég gat varla ekið niður í World Class fyrir ofsakláða og þegar þangað var komið fór hreinlega allt upp sem hlaðið var á stöngina. Lyfjastofnun og MATÍS voru heldur ekki lengi að banna Horsepower þegar forræðishyggjumöppudýrin þar komust að því að verið væri að selja þetta á landinu. Skólabókardæmi um fólk sem mun aldrei taka svo mikið sem stöngina eina í bekk.

En aftur að Dominator-kreatíninu sem eru sjö mismunandi gerðir kreatíns í einni vöru. Þetta gefur alveg nokkur aukahestöfl eftir vikuinntöku og er hrein snilld í bland við Pure Brutal Gainer frá Nordic Power sem ég skrifaði líka um hérna fyrir viku. Ég skaust strax yfir 100 kíló á vigtinni eftir fyrstu vikuna með mjög þungum æfingum samhliða og er allur að þykkna upp með nokkurri styrkaukningu. Sæmileg bæting síðan ég dróst hingað frá Íslandi eftir jólasukkið, búinn að missa tvö kíló eftir skitnar fjórar æfingar á Íslandi en samt fitna um leið og nánast í hauspokaflokki í Elixia fyrstu dagana á eftir. Grét í sturtunni og alls konar. Ömurlegt.

En landið fer að rísa þegar við verðum Aktiv Bedrift-meistarar á spítalanum með rísandi sól!!!

Athugasemdir

athugasemdir