Þriðji í steik

steikNú er ég hættur að tala um einmuna veðurblíðu og tek líka aftur það sem ég skrifaði í síðasta pistli um að hjálp væri fólgin í að vera starfandi við opið gin Norðursjávarins. Það hefur ekki bjargað miklu síðan á þriðjudag en þá mældist einmitt 28 gráðu hiti í skugga á starfssvæði ConocoPhillips. Annars staðar hefði mátt steikja egg á malbikinu.

Meiri öfgarnar í veðrinu hérna upp á síðkastið, annaðhvort rignir sem í sturtu eða maður er hreinlega í einhvers konar martraðarkenndu grilli eins og síðustu þrjá daga. Ég svitna eins og hóra í kirkju og get varla hreyft mig fyrir fötunum sem límast miskunnarlaust við mig og valda ákveðinni hömlun. Auk þess er ég skaðbrunninn á handleggjum og eyrum. Minn eini fjörbaugsgarður er mötuneyti ConocoPhillips sem er svalt og unaðslegt. Annað er hreint helvíti.

Reyndar er mikil stemmning að mæta á æfingu í City Gym í svona veðri þar sem ég hef í raun lokið fullkominni upphitun á þessari sjö mínútna göngu að heiman og niður í stöð. Þegar ég mætti í bak og kálfa í kvöld þöndu menn Rammstein ákaft í græjunum og mikill bætingaandi sveif greinilega yfir vötnum. Varð úr hin öflugasta æfing og hitastig verulegt utan- sem innandyra.steikii

Það var svo um áttaleytið í kvöld sem lofthiti náði því stigi að mér þótti bara nokkuð þægilegt að sitja úti í garði en hafði til öryggis peru-cider innan seilingar til að sporna við ofþornun. Veðurfréttavefurinn yr.no spáir áfram sjóðandi hita í Rogaland að minnsta kosti út mánuðinn og varar við flóðum af völdum snjóbráðar til fjalla og heiftarlegum sólbruna enda keypti ég mér eitthvert sull af varnarstigi 20 í Coop áðan til að smyrja mig með í vinnunni á morgun. En sú náð að komast í helgarfrí og verða þá bara að vinna í dyravörslu að næturlagi. Ekki byði ég í að vera við störf í hnífstunguvestinu, þeirri flík djöfulsins, um hábjartan dag í þessu veðri!

Athugasemdir

athugasemdir