Mér varð hugsað til þess í fyrradag að þá, 5. maí, voru 10 ár liðin síðan ég sá þýsku snillingana í Kraftwerk í Kaplakrika vorið 2004. Þessir tónleikar mörkuðu upphaf gríðarlegrar tónlistarveislu komandi sumars sem að miklu leyti var í boði þess að bandaríkjadalur kostaði á bilinu 68 – 71 krónu á útmánuðum ársins og þurfti ekki að fórna hvítunni úr augunum til að flytja inn þungavigtarhljómsveitir á borð við Metallica sem náði þeim einstæða árangri sunnudaginn 4. júlí að draga 18.000 manns inn í Egilshöll á tónleika sem lengi verða í minnum hafðir. (MYND: Aðgöngumiðasúpan frá 2004. Á myndina vantar miðann á Korn-tónleikana sem bráðnaði í pappakvoðu í vasa mínum á tónleikunum.)
Kraftwerk – Kaplakriki 5. maí 2004 Sennilega eru þetta einir eftirminnilegustu tónleikar sem ég hef heimsótt. Þær eru líklega teljanlegar á ekki mjög mörgum útlimum, hljómsveitir innan popptónlistargeirans sem komast upp með að öll sveitin standi grafkyrr á sviðinu og segi ekki eitt aukatekið orð heila tónleika en eru engu að síður teknar fullkomlega alvarlega sem listamenn. Til að setja punktinn yfir i-ið skiptu þeir félagar um föt tvisvar sinnum meðan á tónleikunum stóð og voru ekki einu sinni staddir á sviðinu við flutning eins verka sinna (The Robots). Engu að síður var sviðsframkoma og -nærvera þeirra svo sterk og alltumlykjandi að nánast var áþreifanlegt. Besta dæmið um þetta er sennilega lokapunktur tónleikanna. Tónlistarmennirnir hneigðu sig þá út í salinn, einn í einu, og gengu af sviði. Síðastur var Florian Schneider sem mælti einu setningu kvöldsins: „Thank you, we’re leaving.“ Fullur salur í Kaplakrika tók þessa kveðju svo hátíðlega að engum datt í hug að reyna að klappa þá upp. Gríðarleg upplifun.
Pixies – Kaplakriki 26. maí 2004 Nú er ég ekki og hef aldrei verið neinn sérstakur Pixies-maður (á hins vegar vini sem hafa verið forfallnir), eina plata þessarar sveitar sem ég þekki eitthvað til er hin gamalgróna Doolittle en hún átti 25 ára afmæli nú í nýliðnum apríl og var í félagi við U2 og The Cure nánast á repeat í flestum framhaldsskólapartýum á minni tíð (1989 – 1993), einkum fyrri hlutanum. Þetta kom sér ágætlega á þessum tónleikum, sérstaklega þegar kom að því að ná út af bílastæðinu áður en hálfur Kaplakriki (veit ekki sölutölur en þarna var langt í frá fullt hús) ruddist út í umferðina. Sveitin spilaði Doolittle nánast í réttri lagaröð og þegar ég var búinn að heyra það sem mig langaði rölti ég bara út og keyrði í rólegheitunum heim. Fékk mér vænan bát á Nonnabita man ég og fór svo bara heim í rúmið. Þetta voru ekki sérstaklega eftirminnilegir tónleikar á neinn hátt og ég veit að harðir Pixies-aðdáendur voru hundfúlir, héldu því fram að Black Francis (Frank Black á sólóferlinum) & co. vantaði bara pening og væru klárlega bara í vinnunni og ekkert meira á þessu ferðalagi. Ég skemmti mér ágætlega, hafði engar sérstakar væntingar fyrir fram.
Korn – Laugardalshöll 30. maí 2004 Þarna mjakaðist hitamælirinn nú upp um nokkrar kommur frá því hjá Pixies fjórum dögum áður og fór eiginlega þannig að aðgöngumiðinn á þessa tónleika hvarf inn í safn tónleikamiða sem ég á ekki eftir að hann leystist einfaldlega upp í drullu í vasa mínum líkt og reyndar miðinn á Rammstein gerði næstum sléttum þremur árum áður í þessu sama húsnæði. Korn voru ekkert minna en hrikalegir, nýbúnir að hleypa stórvirkinu Take a Look in the Mirror af stokkunum og mættir til að fylgja henni eftir af krafti á tvennum tónleikum þessa hvítasunnuhelgi, þetta voru þeir fyrri. Reyndar kom þarna upp atvik sem reyndi töluvert á þolrif viðstaddra. Eftir að upphitunarsveitin Fantomas hafði lokið sér af (mér fannst hún nú bara ekki eiga sérstaklega góðan dag þarna og Dave Lombardo, fyrrum Slayer-trommari, náði ekki að lyfta því neitt að ráði að mínu viti) brotnaði öryggisgirðing við sviðið og tók minnst klukkutíma að koma henni í nothæft horf á ný. Fyrir okkur sem vorum á gólfinu, og framarlega þar að auki, var það á við tuttugu vel útilátnar ferðir í ræktina bara að ná því að standa nokkurn veginn á sama stað allan tímann og hitinn og þrýstingurinn þannig að kol hefðu orðið að demöntum í þvögunni…og miðinn minn að kvoðu. Þessir hnökrar voru þó allir fyrirgefnir, gleymdir og grafnir þegar Jonathan Davis steig á svið með sínum mönnum, grár fyrir járnum og vopnaður sekkjapípu að auki. Ég held að þeir hafi vaðið beint í Right Now, fyrsta lag Mirror-plötunnar, en ég hreinlega man það ekki. Man bara að þetta var virkilega gaman og gaf í raun Rammstein 2001 ekki sentimetra eftir. Ég var alveg ónýtur eftir þetta kvöld og fékk ekki fulla heyrn fyrr en næsta fimmtudag. Frábært.
Metallica – Egilshöll 4. júlí 2004 Tvímælalaust hápunktur sumarsins og ég hef enn ekki fundið þann útlending sem trúir því að þungarokksband hafi náð sex prósentum af þjóð inn í eitt hús. Ég fór hálft í hvoru á Korn til að æfa mig fyrir geðveikina sem ég ætlaði að biði mín í Egilshöllinni þetta sunnudagskvöld og var klár í allt, með einn dag í sumarfrí í vinnunni daginn eftir og reiðubúinn að deyja píslarvættisdauða með lokalaglínuna úr Fade to Black á vörunum. Úr því varð ekki. Þetta var eins og að fara á kaffihús miðað við Korn og segist hér skipuleggjendum tónleikanna til hróss. Ég átti miða á A-svæði sem var nær sviðinu og þar stóð ég bara með nokkuð góðan radíus í kringum mig megnið af tónleikunum. Þó komu víst einhver súrefnisvandræði upp á tímabili, einkum hjá hinum lágvaxnari, og af ósérhlífni minni tók ég fullan þátt í að henda nokkrum meðvitundarlitlum yfir girðinguna til gæslunnar. Fyrir hrein mistök (mér fannst það reyndar ekki) var mér sleppt inn á tónleikana með tveggja lítra flösku, hálfa af rótsterkri landa-/Sprite-blöndu (þetta var áður en ég hætti að drekka sykraða gosdrykki) svo ég var með veitingar fyrir sjálfan mig allan tímann þótt þær væru reyndar orðnar býsna volgar undir lokin. Tónleikarnir voru frábærir. Ég er auðvitað gamall Metallica-djöfull inn að beini og saknaði þar með „míns“ bassaleikara, Jason Newsted (og Cliff Burton þannig séð líka en það er nú kannski aðeins…), en eftirmaður hans, hinn mexíkósk-ættaði Robert Trujillo, réð alveg við hljóðfærið og var svo sem með prik í kladdanum hjá mér fyrir eftir frábæra frammistöðu í Suicidal Tendencies á árum áður. Snemma á tónleikunum ræddi ég við föður um fertugt og tíu ára son hans, báða gallharða í fræðunum, sem sýnir það gríðarlega kynslóðabil sem Metallica nær að brúa og leika ekki allir það eftir. Þetta var einfaldlega algjör upplifun, mikið efni af the big four (fyrstu fjórum plötunum 1983 – 1988) og falleg lokakveðja með sterkum Kaliforníuhreim, „Reykjawík, takk fyrir!“ Umferðaröngþveitið í Grafarvogi og nágrenni á eftir var hins vegar ekkert grín.
Prodigy – Laugardalshöll 15. október 2004 Hæfilegur lokapunktur á þetta fallega tónleikasumar og mikið fjör hjá þeim vitfirringum eins og þeirra er von og vísa. Ég hafði ekki náð þeim í fyrri Íslandsheimsóknum svo það var kominn tími á þetta en við sáum þá svo hér í Noregi haustið 2010 og höfðum af gagn og allnokkurt gaman. Tónleikarnir 2004 voru helgaðir nýútkominni Always Outnumbered, Never Outgunned-plötu sem er að mínu viti svona la la miðað við eldri verk sem fengu allt of lítið að skína í gegn á þessum tónleikum. Þetta var þó mikið fjör og mér er minnisstætt þegar ég þáði far heim eftir tónleikana með Sigurði Þór Skúlasyni, betur þekktum sem Sigga frænda (hans Baldurs). Hann var þarna á einhverjum tveggja sæta sportfáki, ekki man ég gerð, og einhver stúlka stakk sér hálf inn um gluggann hjá okkur og bað, heyrðist mér, um eiginhandaráritun. „Eiginhandaráritun, hverjir heldurðu að við séum?“ spurði ég í forundran enda líkist ég engum í Prodigy held ég og Siggi því síður. „Ég sagði það ekkert!“ var svarið, „ég spurði, eruð þið einir!!?“ Og við á tveggja sæta bíl…