Jæja…það tók nánast fyrstu fjóra vinnudagana eftir sumarfríið að fá kaldan raunveruleikann til að seitla um sálina á ný og ekki var það auðvelt. Mánudagurinn var seigfljótandi hryllingur, þriðjudagurinn sjónarmun skárri og svo var landið nú farið að rísa þokkalega í gær og í dag. Fyrsta ferð í City Gym var á þriðjudag og ljóst að næstu þrjár vikur verða hrein endurhæfing á þeim vettvangi. Þrjár heimsóknir í World Class Laugum náðust í Íslandshluta frísins sem var nokkurn veginn í samræmi við væntingar og þakka ég öllum gömlum þjáningarsystkinum sem ég rakst á þar ánægjulegt spjall. (MYND: Horft af þakpallinum hjá okkur niður á strönd sem var í innan við 100 metra fjarlægð.)
Vissulega var það sniðug ákvörðun að koma til baka úr fríinu á laugardaginn og eiga einn sunnudag til að kalíbrera sig inn í det norske samfunn á nýjan leik. Það var heilmikið átak að rölta út í Coop eftir helstu nauðsynjum á sunnudaginn og mæla á norska tungu í fyrsta sinn í tæpan mánuð og þegar ég mætti skelfingu lostinn til starfa á mánudag munaði minnstu að ég segði bom dia upp á portúgölsku við fyrsta mann fremur en hefðbundið god morgen. Að ekki sé minnst á áráttukennda og sífellda löngun til að biðja um uma garaffa vinho brancho de casa, por favor (flösku af hvítvíni hússins, takk) í mötuneytinu í hádeginu. Hvorugt gerðist þó og ég mundi öll lykilorðin inn í hin ýmsu kerfi og annan djöfulskap. Ótrúlegt. (MYND: Betlarinn okkar, nýkominn með eina Capri og Rósa að reyna að freista hundsins með einhverju gumsi. Hann sagði ekki margt og talaði enga ensku og eiginlega náðum við aldrei nafninu svo við kölluðum hann bara El Rónó. Það dugði.)
Þetta var sem sagt erfitt allt saman en fríið á undan auðvitað algjör unaður. Hápunkturinn á þessu öllu saman var dvölin í Albufeira í Portúgal. Ég skil eiginlega ekki hvað við vorum að gera til London í tvo daga á eftir, hefði verið upplagt að vera í þessari suðrænu paradís alveg fram á það síðasta en við skemmtum okkur svo sem hið besta á báðum stöðum og eigum núna fullt af nýjum og misundarlegum vinum á Facebook…af ýmsum þjóðernum.
Íbúðin sem Bretinn Andrew Higginbottom leigði okkur við Rua Latino Coelho númer 3 stóðst allar væntingar og rúmlega það. Mjög hugguleg, 70 fermetrar og flestur lúxus sem hægt er að biðja um miðað við að við vorum svo sem ekki mikið þar. Útsýni af þakpalli hússins yfir ströndina og djúpblátt Atlantshafið var ekkert minna en stórkostlegt og ótrúlegt að hugsa til þess að handan hafsins lá ekki Danmörk eða Bretland eins og vaninn er hjá okkur, heldur Marokkó.
Beri ég þetta saman við seinasta sólstrandarfrí, sem var í Golden Sands í Búlgaríu í ágúst 2007, er verðlagið svipað en gæði matar og almennur snyrtileiki umhverfisins langt í frá sambærilegt, Búlgaríu í óhag, auk þess sem Portúgalar eru einstaklega opið og skemmtilegt fólk og lausir við þessa örvæntingarfullu sölumennsku/betl sem virðist einhvern veginn hluti af búlgarskri þjóðarsál. Eiginlega var bara einn betlari með viti í Albufeira og hann sat bara í rólegheitum með tvo hunda sína og hatt undir ölmusuna. Sá hélt til í hverfinu okkar, var hinn alþýðlegasti og fékk fyrir vikið gjarnan evru í hattinn frá mér og Capri-sígarettur (sem ég myndi ekki óska mínum versta óvini) frá Rósu auk þess sem hún sýndi þann metnað að gefa hundunum einnig.
Eftir tólf daga í sól og 30 gráðum með hvítvín, sangria, piña colada og gin og tónik aldrei mjög langt undan, að ógleymdum einstökum mat, er nokkuð ljóst að ferðirnar til Albufeira verða fleiri á næstu árum og endi jafnvel með búsetu á eftirlaunaárum lifi maður þau. (MYND: Bizarro-barinn sem hún Alice vinkona okkar rak af miklum skörungsskap í götunni okkar og stóð vaktina sjálf ellefu tíma á dag sex daga vikunnar. Undir lokin vorum við farin að stóla upp og ganga frá með henni værum við á staðnum við lokun. Hún var líkt og dóttir Marðar gígju væn kona, kurteis og vel að sér og lærði fljótt að blanda gin og tónik mjög hratt.)
Ég mun gera þessu bráðskemmtilega sumarfríi 2013 skil í styttri einingum næstu daga, það er engin leið að gera neina skynsamlega grein fyrir þessu öðruvísi. Ég tek fram að dagarnir níu á Íslandi voru ekkert slor heldur og við tókum sólina með okkur þangað eftir allt…vegna fjölda áskorana.